Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:00:08 (15)

2002-10-02 21:00:08# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:00]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Gott og gjöfult sumar er liðið hjá. Á haustdögum er að hefjast síðasta þing þessa kjörtímabils, kjörtímabils sem hefur einkennst af styrkri efnahagsstjórn, metnaði og framförum sem koma hvað skýrast fram í stórhuga áformum um bættan hag þjóðarinnar í atvinnu- og velferðarmálum.

Í stefnuræðu forsrh., sem hér er til umræðu, kemur glögglega fram hve vel hefur tekist að stýra þjóðarskútunni til farsældar og heilla fyrir land og lýð þrátt fyrir ágjöf um tíma þegar öldur verðbólgu risu óþægilega hátt. Með markvissum aðgerðum tókst að lægja þær og nú er verðbólga hér á landi á svipuðu róli og í nágrannalöndum. Kaupmáttur fer enn vaxandi, spáð er 2% aukningu á næsta ári níunda árið í röð, sem er einsdæmi hér á landi. Gengi er í jafnvægi, vextir hafa lækkað, skuldir ríkissjóðs lækka, hinn margumtalaði viðskiptahalli er úr sögunni. Allt þetta sýnir glöggt styrka stjórn á efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar undir forustu Sjálfstfl.

Málefni aldraðra hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Íslenska þjóðin er að eldast. Hlutfallslega færri verða á vinnumarkaði í framtíðinni en nú er. Árið 2000 voru rúmlega 10% þjóðarinnar 67 ára eða eldri en Hagstofan spáir því að árið 2050 verði hlutfallið tæplega 20%. Þetta eru miklar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar sem Íslendingar þurfa að búa sig undir og læra af reynslu annarra þjóða. Jafnframt er mikilvægt að halda þeirri sérstöðu sem við höfum hér á landi og lýtur að atvinnuþátttöku eldra fólks. Hún er miklu meiri en þekkist í nágrannalöndum okkar, t.d. innan Evrópusambandsins, og er eflaust mest að þakka góðu atvinnuástandi hér á landi.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. hefur nú verið stofnað til formlegs samstarfs milli samtaka aldraðra og ríkisvaldsins þar sem meginviðfangsefnin eru annars vegar bætur almannatrygginga og hins vegar uppbygging hjúkrunarheimila fyrir aldraða sem er eitt brýnasta verkefnið á þessu sviði. Miklar vonir eru bundnar við að þetta samstarf skili góðum árangri og til þess er stofnað af miklum heilindum.

Ég geri líka alvarlegar athugasemdir við rangfærslur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að skattar hafi verið hækkaðir á einstaklinga. Nægir í því sambandi að nefna myndarlega lækkun á eignarsköttum sem ásamt lækkun tekjuskatts kemur sér einmitt mjög vel fyrir aldraða. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir skattalækkunum, bæði á einstaklinga og fyrirtæki.

Heilbrigðismál og málefni aldraðra eru nátengd. Mikilvægt er að fólk fái þjónustu á réttu stigi innan heilbrigðiskerfisins. Gildir það jafnt um alla sem þurfa á þjónustu að halda. Vandamál heilbrigðiskerfisins er ekki endilega fjárskortur heldur skipulag. Það ber að leita nýrra leiða til að nýta fjármuni í heilbrigðiskerfinu betur og hiklaust að nota útboð á þjónustu sé þess nokkur kostur. Markmiðið á að vera að tryggja þá bestu og skilvirkustu og hagkvæmustu þjónustu í heilbrigðismálum sem völ er á.

Á undanförnum árum hefur verið mikil gróska í menntamálum enda er öllum ljós sú staðreynd að öflug menntun er undirstaða velmegunar og ekkert gagnast okkur betur í sókninni eftir lífsgæðum en traust menntakerfi sem stendur öllum opið til að nýta sem best hæfileika sína til menntunar og þroska. Upplýsingatæknin hefur gert okkur kleift að bjóða og stunda hvers kyns nám, óháð búsetu, og er spennandi að þróa slíka kosti til hlítar hér á Íslandi. Rannsóknir og vísindi eru ásamt menntamálum grundvöllur framfara á öllum sviðum þjóðlífsins. Nú er unnið að nýrri löggjöf um skipan vísindamála sem styrkir stöðu þeirra verulega. Þar er áhersla lögð á að samhæfa sem best krafta þeirra sem að þessum málum starfa.

Herra forseti. Evrópumálin hafa verið nokkuð til umræðu á árinu, einkanlega tengsl Íslands við Evrópusambandið. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur dugað okkur vel og ekki er sýnt að nein ástæða sé til að þar verði breyting á. Eftir stækkun Evrópusambandsins er ljóst að fram þurfa að fara sérstakar viðræður og samningar við EFTA-löndin til að laga EES-samninginn að þeim breytingum. Atvinnuleysi er mikið innan Evrópusambandsins, að meðaltali 7,6% og jafnvel meira í einstökum löndum, t.d. Frakklandi 9,2% og Finnlandi 9,4%.

Mjög fróðlegt hefur líka verið í sumar að fylgjast með umræðu um hækkanir á vöru og þjónustu eftir upptöku evrunnar. Minnir sú umræða óneitanlega á verðhækkanir hér á landi þegar tvö núll voru skorin af krónunni á sínum tíma, upp úr 1980. Eflaust eigum við eftir að sjá frekari rannsóknir og samanburð en þegar er ljóst að í Suður-Evrópu, einkum á ferðamannastöðum við Miðjarðarhaf, hafa orðið hvað mestar verðhækkanir og einnig víðar á evrusvæðinu, t.d. í Þýskalandi. Eitt er a.m.k. alveg víst, við hefðum ekki siglt jafnhratt upp úr efnahagsvandanum og raun ber vitni ef við hefðum verið búin að taka upp evruna.

Góðir áheyrendur. Úrtölur og myrkratal er ekki sæmandi þjóð sem býr við einhver bestu lífskjör sem fyrirfinnast í víðri veröld. Að sönnu eru mörg verkefni óunnin. Brýnt er að rétta enn hlut þeirra sem standa höllum fæti þrátt fyrir góðærið. Að því er markvisst unnið. Látum ekki úrtöluraddir og bölsýni þingflokks Vinstri grænna draga úr okkur kjark né Evrópusambandsdaður Samfylkingar villa okkur sýn. Það er bjart fyrir stafni hjá íslenskri þjóð, allt bendir til að nýtt hagvaxtarskeið sé að hefjast. Sóknarfærin eru fjölbreytileg og blasa alls staðar við á öllum sviðum og það veltur á okkur Íslendingum sjálfum hvernig okkur tekst að nýta okkur þau til framtíðar. --- Góðar stundir.