Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:38:57 (21)

2002-10-02 21:38:57# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:38]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Hvað hefur farið úrskeiðis í heilbrigðiskerfinu? spurði Davíð Oddsson í ræðu sinni fyrr í kvöld. Hvern skyldi hann vera að spyrja, maðurinn sem hefur verið forsrh. í rúm ellefu ár? Ábyrgðin á stöðunni í heilbrigðismálum er stjórnvalda. Undan því verður ekki vikist hvernig sem forsrh. spyr. Lítum á stöðuna.

Fastlaunakerfi í heilsugæslunni hefur haft þær afleiðingar að afköst hafa minnkað og frumheilsugæsla veikst. Í Kópavogi eru 2.200 manns um hvern heilsugæslulækni, tugþúsundir eru án læknis á höfuðborgarsvæðinu. Sú staðreynd að ekki hefur verið gripið í taumana og aðgangur að sérfræðingum ekki takmarkaður með neinum hætti hefur leitt til þess að frá árinu 1997 hefur kostnaður ríkisins vegna hverrar komu til sérfræðilæknis tvöfaldast og heildarkostnaður ríkissjóðs aukist um 134%.

Lyfjakostnaður ríkisins virðist einnig lúta eigin lögmálum. Landspítali -- háskólasjúkrahús, aðalkennsluspítali landsins, má hins vegar búa við framlög sem endurspegla ekki þörfina sem er fyrir hendi á mikilvægum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Þessu vill Samfylkingin breyta.

Undanfarna daga hefur kastljósinu verið beint að ástandi geðheilbrigðismála. Hörmulegir atburðir hafa vakið okkur til umhugsunar um stöðu geðsjúkra sem oft fær litla athygli í þjóðfélagsumræðunni. Ég gagnrýni harðlega þá mynd sem umræðan um skort á úrræðum fyrir tiltekinn hóp geðsjúkra hefur tekið á sig í fjölmiðlum. Virðingarleysið gagnvart einstaklingum er ótrúlegt og umfjöllunin með þeim hætti að margra ára starf og fræðsla til þess að minnka fordóma meðal almennings gagnvart þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða getur aðeins borið skaða af. Við það verður ekki unað.

Herra forseti. Á Íslandi er vaxin úr grasi kynslóð fólks sem hefur alla möguleika á því að leggja heiminn að fótum sér. Góð og fjölbreytt menntun er lykill þess að framtíðinni og að umheiminum. Það er skylda okkar að leggja megináherslu á jöfn tækifæri til menntunar og búa svo um hnútana að ungt fólk eigi þess raunverulega kost að setjast að á Íslandi að loknu námi, finni störf við hæfi og hafi það á tilfinningunni að hér eigi það heima vegna þess að samfélagið hefur þörf fyrir það og býr vel að því. Þetta unga fólk gerir kröfur um sambærileg lífskjör hér á landi og bjóðast annars staðar. Meðal annars þess vegna verða lífskjörin að vera sambærileg, ekki bara á milli landshluta heldur á milli Íslands og nágrannalandanna. Menntun er ekki einungis hreyfiafl framfara, hún er líka hreyfiafl fólks í hnattvæddum heimi. Samkeppnin um best menntuðu einstaklingana er hörð en ríkisstjórnin hefur enga tilburði uppi til þess að bæta kjör og aðstæður ungs fólks og barnafjölskyldna hér á landi.

Herra forseti. Skilin á milli innanríkis- og utanríkismála verða sífellt óljósari. Við sem sóttum ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun fundum greinilega hvernig hnattrænar áherslur, hvort heldur er í umhverfisvernd eða baráttunni gegn fátækt, verða aldrei slitnar úr samhengi við pólitíkina heima fyrir. Baráttan fyrir jöfnuði, gegn misskiptingu tekna og fyrir bættum réttindum kvenna og barna, hefst alltaf heima. Hún leggur þungar skyldur á herðar okkur gagnvart öðrum löndum og þjóðum og þess vegna eigum við að vera virkir þátttakendur í umræðu og samstarfi á alþjóðlegum vettvangi og leggja miklu meira fé af mörkum í þróunarsamvinnu við fátæk ríki. Lýðræðið er það dýrmætasta sem við eigum og það þarf að endurspeglast í stjórnsýslunni og störfum stjórnmálamanna. Samfylkingin hefur ávallt lagt mikla áherslu á aukið lýðræði, við viljum gera landið að einu kjördæmi og taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvægar ákvarðanir.

Við eigum þó enn langt í land með að færa stjórnkerfið til nútímahorfs. Í þessu efni er ég ekki bara að vísa til úr sér genginnar verkaskiptingar á milli ráðuneytanna, svo eitt dæmi sé nefnt, heldur einnig til þess hvernig pólitísk samtrygging og fyrirgreiðsla setur enn mark sitt á íslenskt samfélag. Kjör fólks mega ekki vera háð geðþóttaákvörðunum einstakra stjórnmálamanna.

Góðir áheyrendur. Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að ungt fólk geri sér grein fyrir því að það hvernig stjórnmálaflokkar halda á málum, hvaða ákvarðanir þeir taka eða taka ekki, skiptir sköpum fyrir framtíð þess, lífskjör og umhverfi. Uppistand á borð við það sem Guðni Ágústsson landbrh. bauð landsmönnum upp á hér fyrr í kvöld segir meira en þúsund orð um málefnastöðu ríkisstjórnarinnar. Við skulum hafa það í huga, nú þegar þjóð og þing sigla inn í kosningavetur.