Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:50:42 (23)

2002-10-02 21:50:42# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, JB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:50]

Jón Bjarnason:

Góðir áheyrendur. Við Íslendingar erum vinnusöm þjóð. Meðallífaldur okkar er með því hæsta sem gerist í heiminum. En slíkt er þó ekki sjálfgefið. Rannsóknir Bryndísar Evu Birgisdóttur, doktors í matvælafræðum, á íslenskri kúamjólk benda til að sú mjólk sé gædd sérstökum eiginleikum sem verndi börn gegn sykursýki. Hefur íslenska kýrin þar sérstöðu gagnvart öðrum kynjum sem hún var borin saman við. Það er skemmst að minnast áætlana fyrr á þessu ári um að flytja inn erlent kúakyn sem hefði á skömmum tíma útrýmt því íslenska. En sem betur fór var þeirri aðför hrundið.

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna sem hér var á dögunum sýndi þessum rannsóknum sérstakan áhuga og vildi koma á samstarfi ríkjanna um rannsóknir á þessum eiginleika íslensku kúamjólkurinnar.

Vel getur verið að aðrar íslenskar matvælaafurðir og heilsuvörur geti búið yfir verðmætri sérstöðu sem frekar þurfi að laða fram en kæfa í hömlulausum innflutningi erlendra matvæla á kostnað innlendrar framleiðslu. Er skemmst að minnast baráttunnar gegn því að kúariðan bærist til landsins á sl. ári. Ef Ísland hefði þá verið orðið fullgildur aðili að innra markaðssvæði Evrópusambandsins með landbúnaðarvörur hefði vörnin gegn þeirri vá verið erfið. Við megum ekki líta langt yfir skammt þegar við horfum til auðlinda okkar. Það veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stendur með þeim sem vilja vernda og nýta fjölbreytileika og gæði lífríkisins og náttúruauðlindanna.

Það er hart tekist á um grunnstoðir íslensks samfélags. Þannig er það í pólitíkinni. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar forsrh. og Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, gengur hart fram í að einkavæða almannaþjónustuna og selja þjónustustofnanir almennings. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins er í fullum gangi en þar skiptist þjóðin í tvær fylkingar.

Á fundi með erlendum bankamönnum nýverið lýsti forsrh. draumsýn sinni um einkavæðingu í þágu samhjálpar sem hann kallaði svo. Nefndi hann þar til aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu, menntun og öldrunarþjónustu. Fá ríki hafa gengið lengra í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en Bandaríkin. Heilbrigðisráðherra þeirra, Tommy G. Thompson, sem hér var á ferðinni lofaði mjög íslenska heilbrigðiskerfið og fannst það mun skilvirkara og ódýrara en það bandaríska og það þjónaði þegnunum vel. Hann sagðist ekki sjá hvers vegna Íslendingar ættu að breyta heilbrigðiskerfi sínu og stefna að frekari einkavæðingu. Hann gæti ekki ráðlagt það. Kannski hefði hæstv. forsrh. átt að hlusta á ráðherra Bandaríkjanna í heilbrigðismálum. En þessum ummælum ráðherrans hefur ekki verið mjög haldið á lofti enda henta þau ekki stefnu núverandi stjórnvalda.

Nýverið birtist skoðanakönnun á vegum Gallups um hug þjóðarinnar til sölu ríkisbankanna. Af þeim sem tóku afstöðu voru einungis liðlega 46% hlynnt en liðlega 53% voru andvíg sölu ríkisbankanna. Og meiri var andstaðan á landsbyggðinni við þessa sölu. Í skoðanakönnunum sem Gallup gerði í mars um hug þjóðarinnar til sölu Landssímans kom fram að yfir 60% eða mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi að Síminn yrði áfram í opinberri eigu. Í öllum landshlutum var mikill meiri hluti fyrir því en 70--80% af íbúum utan höfuðborgarsvæðisins vildu að svo væri áfram. Þjóðin hafði á þessu afdráttarlausa skoðun en hún var allt önnur en skoðun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl.

Góðir áheyrendur. Einkavæðingarferill ríkisstjórnarinnar hefur einkennst af siðspilltri einkavinavæðingu þar sem valdir einstaklingar og hópar hafa bitist um eignir almennings. Framsókn er reyndar núna komin í kosningagír og sýnir sitt tvöfalda andlit, með og á móti, hefur hvergi komið nærri en hirðir samt sitt.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill standa vörð um hugsjónir félagshyggju og samhjálpar. Við viljum sjá sterkt og fjölbreytt atvinnulíf um allt land, til sjávar og sveita. Við viljum byggja upp aukna velferð í íslensku þjóðfélagi. --- Góðar stundir.