Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:38:32 (28)

2002-10-03 10:38:32# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er orðið erfitt að henda reiður á hvað stjórnarandstaðan er að fara með síendurtekinni umræðu um nauðsyn dreifðrar eignaraðildar og andstöðu við að sterk kjölfesta komi að stjórn og rekstri bankanna. Þetta er nefnilega deila um keisarans skegg. Báðar söluaðferðirnar leiða til sömu niðurstöðu. Á endanum verður til kjölfesta í stjórnun banka eins og allra annarra fyrirtækja. Munurinn er sá einn að ef stór hluti er seldur til eins aðila í frumsölu myndast kjölfestan strax.

Ríkisstjórnin hefur allt frá hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna lagt áherslu á að almenningur hafi möguleika á að taka þátt í einkavæðingunni. Í Landsbanka og Búnaðarbanka eru nú tugþúsundir hluthafa og eru bankarnir í hópi fjölmennustu almenningshlutafélaga landsins. En ríkisstjórnin hefur ekki sagt að stærsti hluthafinn eigi einungis að ráða yfir örfáum prósentum heildarhlutafjár. Slíkt er ekki farsælt fyrir rekstur bankanna. Sala á stórum eignarhlutum getur laðað að hæfa fjárfesta sem stuðla að framþróun viðkomandi fyrirtækja og markaðarins alls. Þessi stefna var mörkuð í yfirlýsingu um sölu bankanna frá 1998 en þar segir að æskilegt sé að kjölfestufjárfestar komi til liðs við ríkið sem eigandi og stuðli þannig að aukinni samkeppnishæfni viðkomandi banka og auknu verðmæti. Þessi stefna er áréttuð í stjórnarsáttmálanum og í frv. því sem heimilaði sölu hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka. Athyglisvert var að lesa hvað dr. Michael Sautter, forstjóri fjárfestingarbankahluta Société Générale í Þýskalandi, sagði í viðtali við Morgunblaðið um dreifða aðild og aðild kjölfestufjárfesta. Hann sagði:

,,Hlutirnir ganga hraðar og öruggar fyrir sig þegar einhver einn sterkur aðili er við stjórnvölinn í bankanum og tekur stjórnina í sínar hendur í kjölfar einkavæðingar fremur en að margir litlir aðilar reyni að koma sér saman um stjórnunina.``

Einnig sagði dr. Sautter í sama viðtali:

,,Hvað sem þú gerir, þarftu einn sterkan fjárfesti til að byrja með. Þegar um er að ræða marga smærri fjárfesta þá ganga hlutirnir ekki eins hratt fyrir sig. Allar breytingar taka að sjálfsögðu miklu lengri tíma þegar margir vilja fara með völdin en enginn telur sig bera ábyrgðina.``

Í umræðu síðustu ára um sölu banka hefur því oft verið haldið á lofti að tryggja ætti dreifða eignaraðild að bönkum með lagasetningu sem bannaði fjárfestingu í bönkum yfir ákveðnu hámarki. Ráðherrar lýstu því yfir á sínum tíma að þetta væri fýsileg leið, m.a. lýsti ég því yfir að hana þyrfti að skoða. Í framhaldi af ítarlegri skoðun á kostum og göllum hinna ýmsu leiða tók ríkisstjórnin ákvörðun um að leggja til þann kost að styrkja verulega eftirlit með eigendum stórra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Frv. varð síðan að lögum vorið 2001. Tilgangurinn með hinum nýju lögum er sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra. Viss hætta þykir á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum beiti áhrifum sínum sem fylgja eignarhaldinu í því skyni að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækjanna, annarra hluthafa eða eftir atvikum annarra viðskiptavina. Slík háttsemi er skaðleg viðkomandi fyrirtækjum og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á fjármálamarkaðnum.

Lögunum er hins vegar ekki ætlað að girða fyrir það að einstakir hluthafar eignist stóra eignarhluta vegna þess að slíkum eignarhlutum geta fylgt miklir kostir, eins og ég hef áður rakið. Þessi nálgun er í samræmi við hina almennu meginreglu á EES-svæðinu. Með þessu hefur ríkisstjórnin skilgreint stefnu sína með ítarlegum hætti og lokað málinu.