Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:43:23 (29)

2002-10-03 10:43:23# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Banka- og fjármálakerfi er drjúgur hluti af undirstöðu atvinnu- og efnahagslífs hverrar þjóðar. Ef þessi undirstaða brestur eða gefur sig er voðinn vís, enda hefur það sýnt sig að þá grípur samfélagið í taumana og ríkisvaldi og ríkissjóði er beitt til að forðast frekari áföll. Þetta gerðist þegar bankakerfið riðaði til falls í Kanada. Það gerðist þegar bankakerfið riðaði til falls í Noregi og í Svíþjóð svo að dæmi séu tekin frá síðustu áratugum, en í þessum ríkjum var veitt hundruðum milljarða inn í kerfið úr opinberum sjóðum til þess að koma í veg fyrir keðjuverkandi áhrif í efnahagslífinu svo bankarnir tækju ekki heimili og fyrirtæki með í fallinu.

Það er því ekki að ófyrirsynju að talað er um mikilvægi þess að í fjármálakerfinu sé kjölfesta. Á Íslandi, í okkar litla og að mörgu leyti viðkvæma hagkerfi, höfum við haft ríkisbanka með þjóðina alla að bakhjarli í blíðu og stríðu. Ríkisbankarnir hafa reynst ágæt kjölfesta og á tímum þegar aukin samþjöppun á sér stað í viðskiptalífinu hefur eignarhald þjóðarinnar allrar á veigamiklum hluta fjármálakerfisins komið í veg fyrir að sömu aðilar og eru að ná undirtökum í atvinnulífinu nái einnig fjármálakerfinu á sitt vald og um vald snýst þetta einnig. Eign þjóðarinnar á bönkunum eða a.m.k. einum ríkisbanka er til þess fallin að tryggja jafnræði í þjóðfélaginu, alla vega spornar þetta fyrirkomulag gegn einokandi valdi. Nú ætlar ríkisstjórnin að skipta á sjálfri sér eða þjóðinni og því sem hún kallar kjölfestufjárfesti í Landsbankanum. Einn þessara kjölfestufjárfesta sem sagður er koma til greina sagði í blaðaviðtali fyrir nokkrum dögum að hann hygðist þó ekki ætla að stýra Landsbankanum lengi því að hann sagði, með leyfi forseta:

,,Við vonumst til að stoppa þarna í svona fjögur ár og selja svo bankann áfram til almennings.``

Er þetta sá ábyrgi aðili og sú mikla kjölfesta sem hæstv. viðskrh. segist nú vera að laða að?

Tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa verið eftirfarandi: Seljum ekki hlut ríkisins í ríkisbönkunum. Tryggjum áfram þá kjölfestu sem við búum við. Ef hins vegar er fyrir því meiri hluti á Alþingi að selja bankann --- sá meiri hluti er ekki fyrir hendi úti í þjóðfélaginu --- tryggjum þá dreifðan eignarhlut til að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) geigvænlega einokun í íslensku efnahags- og atvinnulífi.