Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:50:27 (32)

2002-10-03 10:50:27# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er nöturlegt að horfa upp á hvernig stjórnarflokkarnir virðast miskunnarlaust beita pólitískum áhrifum sínum til að ráða hverjir eignast bankana. Fram úr keyrði í hrossakaupunum þegar eignarhluti Landsbankans í VÍS, sem framsóknarmenn líta á sem arfleifð sína, er færð undan bankanum til höfuðstöðva VÍS áður en krónprins framsóknarmanna er borinn á gullstól úr stól seðlabankastjóra í stól forstjóra VÍS. Þar hirðir Finnur fyrir tvenn árslaun lágtekjufólks á mánuði en vistaskiptunum finnur hann helst til ama að geta minna sinnt hestamennsku.

Öll þessi ógeðfelldu hrossakaup munu leiða til þess að bankarnir, sem þegar mala gull á vaxtaokrinu og þóknunum sem jukust á síðasta ári um 40% milli ára, munu enn auka á álögur á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig mun þetta koma fram í fækkun á starfsfólki og minni þjónustu við landsbyggðina. Þetta kallar formaður efh.- og viðskn. að þjóna viðskiptavinunum.

Almenningi hefur þegar blætt nóg fyrir græðgi bankakerfisins og pólitíska íhlutun stjórnarflokkanna. Það er í skjóli einokunar, fákeppni, skattaívilnana og gjafakvóta sem auður þjóðarinnar er að færast í hendur nokkurra tuga einstaklinga og fjölskyldna. Auðmennirnir raka til sín auði sem skiptir mörgum hundruðum milljóna og milljörðum á hverju ári af fjármagnseign þeirra, m.a. í skjóli skattaívilnana og hlunninda sem stjórnarflokkarnir hafa fært þeim á silfurfati meðan almenningur er skattpíndur. Fáeinir auðmenn eru því smám saman að eignast Ísland og deila og drottna yfir heilu atvinnugreinunum. Með hjálp stjórnarflokkanna eiga þeir líka að eignast bankana. Þetta kallar viðskrh. að deila um keisarans skegg.

Rök hæstv. ráðherra gegn dreifðri eignaraðild standast ekki. Hæstv. ráðherra ber skylda til að grípa í taumana í þessu efni og endurmeta afstöðu sína til dreifðrar eignaraðildar sem á auðvitað að vera forsenda fyrir sölu bankanna. Almannahagsmunir eru þar í húfi.