Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:01:53 (37)

2002-10-03 11:01:53# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum hvernig menn geta snúist í þessari umræðu eftir því hvaða línur hæstv. ríkisstjórn leggur. Hv. þm. Pétur Blöndal, sem í sumar hljóp milli fjölmiðla og lýsti því yfir að það væri ómögulegt að menn sætu í SPRON í skjóli fjármagns sem enginn á og nytu þeirra miklu valda, segir núna í ræðu hér á hinu háa Alþingi að völd yfir bankastofnunum feli ekki í sér nein völd, þetta séu þjónustustofnanir. Þetta voru yfirlýsingarnar í sumar. Nú er eitthvað allt annað í gangi. Við skulum reyna að halda umræðunni á skynsamlegu plani.

Virðulegi forseti. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ræða hæstv. viðskrh. er einhver aumasta vörn fyrir helmingaskipti sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Hæstv. viðskrh. vísaði til þess að ef fáir, jafnvel einn færi með völd í bankanum þá væru boðleiðir skýrar og stefnan skýr og hann þyrfti ekki að semja við neinn. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og menn hafa fyrir einveldi vegna þess í lýðræðinu felast ákveðin vandkvæði. Menn þurfa að semja um niðurstöðu. Það tryggir líka að völdin safnist ekki um of á sömu höndina. Þetta eru nákvæmlega sömu röksemdirnar. Það er því með hreinum ólíkindum að hlýða á hvernig menn reyna að verja þá niðurstöðu að afhenda fáum útvöldum völd í gegnum sölu á ráðandi hlut.

Þá var ekki síður merkilegt að hlýða hér á hv. þm. Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Verslunarráðs, sem hefur gengið harðast fram gegn öllum tilraunum manna til að tryggja einmitt að viðskiptavinir fái völd því að viðskiptavinir fá ekki völdin nema samkeppni sé tryggð. Enginn hefur gengið harðar gegn markmiðum og aðgerðum Samkeppnisstofnunar en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem síðan lýsir því yfir að nauðsynlegt sé að viðskiptavinirnir fái völd.

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum hvernig sjóliðar ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) á hinu háa Alþingi bregðast við þessari umræðu.