Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:09:00 (42)

2002-10-03 11:09:00# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:09]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins. Flutningsmenn ásamt mér eru Bryndís Hlöðversdóttir og Össur Skarphéðinsson. Ályktunargreinin hljóðar svo, herra forseti:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita orsaka fyrir mismunandi matvælaverði á Norðurlöndum ... Í þessu skyni fari fram nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum ... og þeim skilyrðum sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun eru búin í hverju landi fyrir sig. Jafnframt verði sérstaklega leitt í ljós hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif á mismunandi þróun matvælaverðs í löndunum.

Niðurstöðum þessarar athugunar skal skila til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt þessarar tillögu.``

Herra forseti. Samhliða þessari tillögu hef ég flutt tillögu um að jafnaðarlega fari fram samanburður á tiltekinni matarkörfu til upplýsingar og aðhalds þannig að borin sé saman tiltekin karfa á Norðurlöndunum og helst jafnframt við körfu frá Evrópusambandinu og reynt að nota staðlaða matarflokka sem þar eru notaðir til samanburðar.

Virðulegi forseti. Ég kýs að þeirri tillögu verði vísað beint til nefndar án umræðu þar sem hún tengist mjög tillögunni sem ég mæli nú fyrir og því ekki ástæða til að taka hana á dagskrá nokkrum dögum síðar því að hún tengist því sem hér er rætt.

Tvennt vegur þyngst í fjárhagslegri afkomu heimilanna í landinu, annars vegar kostnaður við íbúðarhúsnæði og hins vegar matarkostnaður sem hér er gerður að umtalsefni. Þetta tvennt ræður í raun úrslitum um þau lífsgæði sem almenningi í landinu eru búin.

Hátt matvælaverð hér á landi er staðreynd. Það sýna fyrirliggjandi tölfræðigögn svo ekki verður um villst. Samanburðurinn er verulega óhagstæður hvort sem litið er til annarra Norðurlanda eða Evrópusambandsins í heild. Nákvæm greining á orsökum þessa liggur ekki fyrir en slíkt er forsenda þess að málefnaleg umræða geti farið fram um leiðir til að draga úr þessum mun eða eyða honum, en slíkt er stórkostlegt hagsmunamál fyrir almenning.

Herra forseti. Samfylkingin hefur kynnt áherslur sínar í upphafi þings. Þar vega þungt málefni neytenda og velferð fólksins. Samfylkingin hefur sýnt það svo að ekki verður um villst að hagsmunir fólksins í landinu verða settir í öndvegi þar sem Samfylkingin kemur að málum. Lífskjör í landinu okkar hafa tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Mikil velmegun blasir við en jafnframt mikil misskipting. Margir geta veitt sér hvað sem er, temja sér dýran lífsstíl í mat og drykk. En aðrir eiga vart til hnífs og skeiðar. Veröldin öll er orðinn vettvangur og vinnumarkaður fólks, líka okkar Íslendinga. Fólk ferðast meira en nokkru sinni fyrr og þekking á lífsháttum í öðrum löndum og jafnvel öðrum heimshlutum er staðreynd. Þess vegna er umræðan um samanburð á lífskjörum algeng á Íslandi og flestir þættir velferðarsamfélaga á Vesturlöndum eru ræddir og bornir saman.

Herra forseti. Þess vegna vildi ég kanna hver væri raunveruleikinn þegar fólk talar um hátt matarverð sem við finnum oft brenna á okkur, ræðum um en höfum kannski ekki beinlínis þekkingu á. Því var það, fljótlega eftir að þing kom saman á síðasta ári, að ég flutti fyrirspurn til hæstv. ráðherra Hagstofu sem er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og óskaði eftir samanburði á því hvernig verðlagsvísitala matvöru hefði þróast á Norðurlöndunum allan áratuginn 1990--2000, sundurliðað eftir árum og tímabilinu í heild. Í fyrirspurninni var óskað eftir því að greint væri á milli verðlags á innfluttum og innlendum vörum, en þær upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi. Við gátum fengið og fengum í svari ráðherra Hagstofu mjög góðar skilgreiningar á því hvernig vísitölur hafa þróast á árunum 1990--2000. Þar var tekin fyrir vísitala matvæla í heild, vísitölur fyrir grænmeti og vísitölur fyrir landbúnaðarvörur. Og sama var hvar borið var niður. Seinni hluta áratugarins hækkuðu vísitölur í þessum matarflokkum umtalsvert á Íslandi og langt umfram Norðurlöndin.

Óskað var eftir svari við því í þessari fyrirspurn að ef veruleg frávik væru á þróun vísitalna á milli landa, hverjar væru þá helstu ástæður þeirra. Væri skýringanna að leita í mismunandi tengslum ríkjanna við Evrópusambandið, væri þeirra að leita í mismunandi framleiðslu- og verslunarháttum eða í sérstökum verndaraðgerðum hjá okkur sjálfum í þágu innlendrar framleiðslu? Í svarinu var tekið fram að hvorki væri unnt að ráðast í nákvæman samanburð á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum né þeim skilyrðum sem þeim greinum sem hér um ræðir, matvælaframleiðslu og matvöruverslun, eru búin í hverju landi fyrir sig.

[11:15]

Herra forseti. Ég get skilið að ekki sé unnt að ráðast í flókinn samanburð til að svara áðurnefndri fyrirspurn en tillagan sem hér er mælt fyrir á að bæta úr þeim þekkingarskorti svo unnt sé að leita orsaka hins háa matarverðs á Íslandi. Við höfum verið að bera saman matarverð frá árinu 1990--2000, þ.e. vísitöluna. Við vissum ekki hvert matarverðið hafði verið í upphafi áratugarins, hvernig við vorum samkeppnisfær þá. Fróðlegt var jafnframt að vita um breytinguna milli áranna 2000 og 2001, en árið 2001 var ekki inni í þeim samanburði sem Hagstofa Íslands vann á síðasta þingi.

Skemmst er frá því að segja að nú í ágústmánuði óskaði ég eftir því við Hagstofuna að unninn yrði þessi samanburður á vísitölunni fyrir árið 2001. Þá kom í ljós að á hinum Norðurlöndunum hækkaði vísitalan um 3 og 4% og lækkaði jafnvel, eins og í Noregi, en á Íslandi hækkaði hún á milli áranna 2000 og 2001 úr 113,7 í 121,5. Þetta eru þær töflur sem eru birtar í greinargerð með þingmálinu sem ég mæli hér fyrir.

Þetta er mjög athyglisvert og segir okkur að verðhækkanir hafa verið umtalsvert meiri hér á landi en á Norðurlöndunum á milli áranna 2000 og 2001.

Upplýsingar um þróun vísitölunnar sýndu hrikalegan mun Íslands og Noregs annars vegar og annarra Norðurlanda hins vegar. Þær vöktu áhuga margra sem um þetta mál fjölluðu á því hvort skýringarinnar gæti verið að leita í því að Ísland og Noregur standa utan Evrópusambandsins. Ég vil taka það sérstaklega fram að þetta mál var ekki sett af stað til að vinna með samanburð við Evrópusambandið. Hins vegar kemur í ljós þegar frekari gögn eru skoðuð, t.d. matvælaverð á Norðurlöndum, að það er gjarnan borið saman við meðaltalsverð 15 landa Evrópusambandsins.

Ef við ætlum að breyta því að Íslendingar búi við einna hæsta matvælaverð eða hæsta matvælaverð í Evrópu, þurfum við að leita orsakanna. Hvaða hlekkir framleiðslunnar hjá okkur valda því að matvælaverð er hærra hjá okkur, á innlendri framleiðslu, en annars staðar? Hvað veldur því að innflutt matvara er miklu dýrari hér en annars staðar? Ef við könnum ekki málið getum við ekki farið réttar leiðir til að gera þær breytingar sem á þarf að halda.

Eins og ég segi er hátt matvælaverð á Íslandi staðreynd. Árið 2000 er, samkvæmt skýrslu sem unnin var af norsku hagstofunni og ég notaðist við í vinnu minni, matarverð á Íslandi 69% hærra en meðaltal 15 landa Evrópusambandsins. Í Noregi er það 62% hærra en lítillega hærra er matarverðið í Þýskalandi sem er tekið út úr til samanburðar við Norðurlönd. Á hinum Norðurlöndunum fer verðið gjarnan um 10 og 20% umfram meðalverðið. Brauðvörur, þar sem innihaldið er grjón og pasta, pitsur, morgunkorn o.fl. eru 80% dýrari á Íslandi. Noregur fylgir síðan fast á eftir á meðan Þýskaland er innan við 10% hærra en meðaltalið. Kjötvörur á Íslandi eru 74% dýrari á Íslandi. Það er u.þ.b. jafnhátt í Noregi en undir meðaltali í Finnlandi. Sama er að segja um mjólkurvörur og egg, ávexti og grænmeti, sem eru annars vegar 72% dýrari og hins vegar 87% dýrari.

Það sem er merkilegt þegar maður fer að skoða þessi mál og vinna með gögnin frá Hagstofu Íslands og annars staðar að er hversu mjög við skerum okkur úr. Í morgunútvarpinu í morgun ræddu hagfræðingar um matarverð. Þar sagði hagfræðingur sem svo að mesta vægið fyrir þróun matarverðs á Íslandi hefðu samkeppnin og opinberar aðgerðir.

,,Þegar hagsæld vex með þjóðinni,`` sagði hagfræðingurinn, ,,er það lögmál að maturinn hækkar. Menn reyna að ná til sín sem mestu.``

Þegar við skoðum hvað hefur verið að breytast í umhverfinu hjá okkur, t.d. í matvöruversluninni, er ljóst að matvælakeðjur eru nú með 70--80% af sölunni. Þess hefði því mátt vænta hjá okkur, a.m.k. í samanburði á milli áranna 2000 og 2001, að matarverð færi heldur að lækka hjá okkur.

Sama má segja um innlenda matvöru. Þegar maður skoðar tilsend gögn kemur í ljós að framleiðandinn, bóndinn, fær ekki mikið til sín. Þetta má lesa á heimasíðu nautakjötsframleiðenda. Við þekkjum umræðuna um bændur og kindakjötsframleiðslu og vitum að mjög margir bændur eru við fátæktarmörk. Ekki fá þeir miklu hærri tekjur en bændur á Norðurlöndunum ef við eigum að draga ályktanir af umfjölluninni undanfarið, m.a. ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Það er skylda okkar að kanna hvernig þessum málum er háttað. Samanburðurinn við Evrópusambandslöndin er mjög faglega unninn. Í raun er um alþjóðlegan samanburð að ræða sem tekur til verðlags í 31 landi. Þetta eru mjög umfangsmiklar kannanir þar sem 550 vörueiningar eru notaðar og margar tegundir. Um er að ræða þriggja ára könnunarfasa þar sem 1/3 af matarverðinu er tekinn út árlega og hinir þættirnir framreiknaðir. Þannig náum við á þremur árum vissri heildarsýn á hver munurinn er, annars vegar meðaltalið í Evrópusambandslöndunum og hins vegar á Norðurlöndunum. Við Íslendingar höfum þrisvar tekið þátt í þessum könnunum, 1995, 1998 og árið 2001.

Þetta er flókið en þetta er mjög merkilegt. Þarna fáum við að vita allt um þróun matvælaverðsins hjá okkur en við fáum ekki að vita hvað það er hjá okkur sjálfum sem þróast með öðrum hætti en í nágrannalöndunum.

Um það fjallar þessi tillaga, herra forseti, sem ég hef mælt fyrir hér nú sem fyrsta máli í upphafi þings. Það gleður mig sérstaklega að við skulum hefja störfin á þingmannamáli. Ég vona að það sé vísbending um að þingmannamálum verði gert hærra undir höfði á þessu þingi en oft áður.

Fái þessi tillaga stuðning ætlum við að kanna hvar þeir hlekkir eru sem breytast hjá okkur. Hvað það er sem gerir matarverðið hærra hjá okkur en á öllum Norðurlöndunum, að ég tali ekki um það þegar við leitum út fyrir Norðurlöndin þar sem við vitum að bæði laun eru hærri en hjá okkur og velsæld mikil.