Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:33:11 (48)

2002-10-03 11:33:11# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:33]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst afskaplega dapurt ef orðið Evrópa kveikir alltaf svo heitar tilfinningar í brjóstum manna að ekki er hægt að tala um mál sem snúa að allt öðru öðruvísi en að þær tilfinningar velli upp á yfirborðið.

Málið er að það er ekki til beinn samanburður á milli Norðurlandanna nema í skýrslu Samkeppnisstofnunar sem var unnin 1996--2000 og sem ég er reyndar líka með á borði mínu. Þar er munurinn enn þá hærri í flestum vöruflokkum. Ég hef kosið að nota þessa skýrslu sem er fagleg og nær til yfir 600 matareininga og svo margra landa en þá er aðferðafræðin sú að taka 15 Evrópulönd og fá meðaltalsverð út úr því. Það er sett á 100 og önnur Norðurlönd eru borin þar saman við. Þetta mál, hvort sem við erum Evrópusinnar eða ekki, snýr að Íslandi en snertir Evrópuverð.