Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:36:30 (50)

2002-10-03 11:36:30# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri mjög varhugavert ef maður ætlar að vera með þingmál sem unnið er og stutt góðum gögnum að vinna persónulegar kannanir um t.d. áhrif myntbreytingar í einhverjum löndum. Ég held að það sé mjög líklegt, eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir vekur hér máls á, að myntbreyting hafi alltaf tilhneigingu til að ýta verði upp á við. Við notum þau gögn sem er að fá hjá Hagstofunni og það sem er merkilegast, og ég vil undirstrika það, er að þó að við séum með gögn í þingmálinu sem ná til ársins 2000 segir vísitalan sem kemur frá Hagstofu Íslands að matarverð hafi hækkað langmest á Íslandi á milli áranna 2000 og 2001, úr 113,7 í 121, á meðan hin hafa hækkað um 3 og 4 og 5%. Þetta styður það að matarverð sé ekki lækkandi.

Það er búin að verið mikil umræða um matarverð og í þeim pappírum sem ég er með og get komið inn á í síðari ræðu minni veita blöðin ótal upplýsingar um samanburð á vöru. Bara núna á þessu ári, fyrri part sumars, fjallar Morgunblaðið um að saltfiskur sé einum 200--300% dýrari á Íslandi en á Spáni. Það var núna í sumar. Kannanir voru gerðar á vegum ASÍ og Morgunblaðsins í sumar um heilsuvörur og munurinn var yfir 200% á Íslandi. Þetta eru litlar kannanir með sértækri úttekt. Kannanirnar sem ég vel að nota eru stórar, umfangsmiklar og faglega unnar af hagstofum allra landanna, 31 lands. Þetta tek ég fram til að gefa vísbendingar um hvernig þróunin er hjá okkur og sem við ætlum að leita skýringa á, ekki að svara þeim hér heldur leita skýringa á.