Athugasemd um ummæli þingmanns

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:03:41 (61)

2002-10-03 12:03:41# 128. lþ. 3.98 fundur 137#B athugasemd um ummæli þingmanns#, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér er nú nokkur vandi á höndum ef ég má ekki ræða um framkvæmdastjóra Sjálfstfl. í þessum þingsal. Hann hefur það hlutverk í þjóðlífinu sem skiptir miklu máli og enginn efast um að hann er einn helsti ráðgjafi forsrh. og ríkisstjórnarinnar.

Það er ekkert leyndarmál að hann á eignarhlut í Landsbankanum og ég veit ekki til þess að hann hafi reynt að fara með það sem neitt leyndarmál og það nefndi ég hér til þess að koma því á framfæri að það er ekki sama hvernig menn fjalla um mál af þessu tagi. Það þýðir ekki fyrir menn að koma hér og tala um óhlutdrægni í öðru orðinu, að menn eigi að víkja vegna þess að þeir séu ekki hæfir til þess að fjalla um mál af því að þeir hafi persónulegar ástæður til þess að láta sig málin skipta. En svo megi ekki tala um það hér á hv. Alþingi að sjálfur framkvæmdastjóri Sjálfstfl. eigi hlut að máli með þessum hætti.

Ég læt vera að ræða um ríkisendurskoðanda. Ég hef talað um hann hér áður og get farið yfir það við betra tækifæri ef þarf til upprifjunar fyrir hæstv. forseta hvaða afskipti hann hefur haft af málefnum banka á Íslandi.