Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:08:13 (66)

2002-10-03 12:08:13# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að ræða dagskrármálið, þ.e. till. til þál. um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins. Um þá meginhugsun tillögunnar að skoða verðlag á matvælum hér og bera það saman við önnur lönd hef ég ekkert nema gott eitt að segja. Ég hefði þó kannski talið að tillagan væri betur úr garði gerð þannig að hún beindist að vöruverði almennt en horfði ekki þröngt til matvælaverðsins eins og er í raun og veru ákaflega erfitt að aðgreina vöruverð, ég tala nú ekki um matvælaverð sérstaklega frá almennum verðlagssamanburði ef út í það er farið því það er að sjálfsögðu hið almenna verðlag og kaupmáttur launa gagnvart vörum og þjónustu í hverju landi sem er samanburðarhæfasti mælikvarðinn.

Nú er það svo, herra forseti, að það er ekkert nýtt, það eru ekki ný sannindi að verðlag sé hátt á Íslandi. Það mun hafa verið nóbelsskáldið okkar, ef ég man rétt, sem komst hnyttilega að orði eins og stundum endranær í viðtali við erlendan blaðamann og sagði að það væri almennt talað mjög dýrt að vera Íslendingur. Það eru ekki ný sannindi. Það er almennt talað dýrt að vera Íslendingur en við viljum nú vera það samt.

Ég vil líka mæla ákveðin varnaðarorð gagnvart því að menn festi sig í of bókstaflegum eða tölulegum samanburði við tiltekin áramót. Ég held t.d. að í þeirri miklu umræðu um hækkun matvælaverðs á Íslandi milli áranna 2000 og 2001 gætu leynst miklar hættur. Má ég þá spyrja tillögumenn hvaða gengi íslensku krónunnar t.d. sé notað í verðsamanburðinum. Bara það eitt að velja sér viðmiðunarpunkt í þeim efnum getur verið ákaflega vandasamt. Er það mögulega árslokagengi íslensku krónunnar við áramótin 2001/2002 sem er notað? Hvar stóð íslenska krónan þá gagnvart erlendum gjaldmiðlum? Hvernig væri samanburðurinn miðað við gengi krónunnar í dag o.s.frv.? Það væri fróðlegt að hv. 1. flm. eða einhver annar aðstandandi tillögunnar t.d. upplýsti okkur um þetta eitt.

Látið var að því liggja að mögulega væri þessi óhagstæða þróun á árinu 2001 borið saman við fyrri ár því að kenna að þá hefði verslunarumhverfið á Íslandi breyst svo mjög til hins verra, fákeppni aukist. Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem nefndi þetta. Það má vera með miklum ólíkindum ef því hefur hrakað svona harkalega á einu ári. Gæti það ekki mögulega verið að samanburðurinn, t.d. gengissamanburðurinn væri þarna á ferðinni? Ekki breyttust tengsl Íslands við Evrópusambandið í öllu falli á þessu ári, ekki er það skýringin.

Um þann þátt málsins, herra forseti, er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum. Ég tel ágalla á tillögunni að hún gengur allt of mikið út á það að tengja þetta við spurninguna um hvort Ísland eigi að vera eða sé aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Ég sé ekki að það sé skynsamlegt í þessu efni og það er mikill misskilningur tel ég vera, sem kemur svolítið fram í umræðum nú, að með því einu að ganga í Evrópusambandið fengju Íslendingar sisvona mið-evrópskt verðlag. Það er næstum því jafnbarnalegt og að halda að með því að ganga í Evrópusambandið fengjum við suður-evrópskt loftslag, veðurfar eða hitastig. Það bara er ekki þannig. Einmitt til marks um það að varasamt er að álykta svona eru þær staðreyndir sem að hluta til koma fram í tillögunni og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson benti á, að innflutta matvaran sem flutt er til landsins án nokkurra tolla og við ættum að geta keypt hér á heimsmarkaðsverði er hvað dýrust. Hvernig stendur á því að kornvara, matarolíur, ávaxtadrykkir og annað því um líkt er hlutfallslega í þessum samanburði jafnvel enn þá dýrara á Íslandi borið saman við samanburðarlöndin en innlenda framleiðslan? Segir það ekki sína sögu? Verðum við ekki að álykta af því að sennilega sé þetta ekki svo einfalt að bara með því að ganga í Evrópusambandið fengjum við uppi á Íslandi evrópskt verðlag? Það er greinilega eitthvað annað sem þarna er á ferðinni að stærstum hluta.

Samanburðurinn við Noreg er einnig athyglisverður. Það er auðvitað engin tilviljun að Ísland og Noregur eru þarna hátt uppi á listanum, Norðurlöndin og Þýskaland. Þetta eru lönd þar sem verðlag almennt er hátt. Meðaltalið í Evrópusambandinu er meðaltal Evrópusambandsins. Hvað er innan þess meðaltals? Það eru Suður-Evrópulöndin með allt annað verðlag, allt önnur laun og allt annan kaupmátt þannig að við verðum auðvitað að hafa þetta í huga, herra forseti.

Síðan verðum við líka að vega það og meta hvað er fengið og hverju er fórnað í hverju tilliti. Það er mjög margt sem að lokum myndar verðlag í einu landi. Það eru þessir almennu þættir, kaupgjald, aðstæður, það er stærð markaðarins, flutningskostnaður, það er fjarlægð frá uppsprettu vörunnar o.s.frv. Að þessu öllu þurfum við að huga.

Ég held að mjög mikilvægt sé að skoða hvaða ráðstafanir er hægt að gera til þess að lækka matvælaverð á Íslandi og það er ekki ný umræða. Sennilega hafa önnur mál ekki verið rædd annað eins, m.a. í þessum sal, og einmitt matvælaverð þegar hinn margfrægi matarskattur kom á. Þá var auðvitað tekist mjög harkalega á um þær mikilvægu neysluvörur heimilanna sem vægju þyngst í útgjaldakörfu t.d. barnmargra lágtekjufjölskyldna, hvað væri hægt að gera til þess að verðlagið á þeim mikilvægu vörum hækkaði ekki. En menn létu sig samt hafa það þá að skella á þetta fullum söluskatti og seinna virðisaukaskatti sem að vísu tókst svo að lækka með harðri baráttu. Það eru ráðstafanir sem við getum gripið til og eigum að gera. Við eigum að sjálfsögðu að skoða skattalegt umhverfi verslunar, ekki síst matvælaverslunar og matvælaframleiðslu í landinu. Það eru hlutir eins og flutningskostnaður sem vega þungt í vöruverði á landsbyggðinni þar sem þetta er tilfinnanlegast og verðlagið er hæst og það er verslunarumhverfið, það er fákeppnin hér og annað í þeim dúr og á slíkum þáttum getum við tekið. En ég held að það sé ekki mjög frjó umræða að sá því út á meðal fólks að með því að ganga í Evrópusambandið muni þetta lagast af sjálfu sér. Í öllu falli mundi þetta ekki skila miklu fyrr en að þeim fimm eða tíu árum liðnum sem Ísland yrði mögulega komið inn í Evrópusambandið og reynslan hefur sýnt hjá öðrum þjóðum að það er sýnd veiði en ekki gefin að ætla sér að ná inn mið-evrópsku verðlagi með því. Reynsla Finna var m.a. ekki sú að matvælaverðið lækkaði eins og þar hafði verið lofað í takt við aðild að Evrópusambandinu en finnskir bændur fengu sína löðrunga og geta margt af því sagt.

Herra forseti. Ég held að könnun á þessum þáttum sé góðra gjalda verð. Ég held að hún ætti að vera almenn, hún ætti að vera óskilyrt og ekki eigi sérstaklega ganga út frá því að tenging Norðurlandanna við Evrópusambandið sé aðalatriði þess máls.