Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:31:28 (71)

2002-10-03 12:31:28# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Í seinna andsvari mínu má leiða líkur að því sem hv. þm. nefndi áðan. Auðvitað er það ekki bara fjárfesting í verslunarhúsnæðinu þar sem kaupandinn kemur inn og verslar. Það er auðvitað líka fjárfesting hjá heildsölum í því húsnæði sem notað er til þess að geyma viðkomandi vöru eftir að hún er flutt til landsins og flutt svo út. Auðvitað fer það líka beint út í verðlagið og ef þar er offjárfesting þá hefur það áhrif.

Hvort þessi offjárfesting gefi tóninn í þessu efni, jú, vafalaust er það rétt. Mér þótti mjög athyglisvert það sem hv. þm. nefndi frá Danmörku, að þar væri þessum hlutum stjórnað meira og þar kæmust menn ekki í offjárfestingar í verslunarhúsnæði. Auðvitað má segja að hér ætti það að vera þannig. Við búum hins vegar í frjálsu landi og ef einhver vill byggja verslunarmiðstöð sem nóg af er fyrir á viðkomandi stöðum, og á fyrir því peninga, er eðlilegt að hann fái að sjálfsögðu að gera það. En ef viðkomandi --- eins og er í flestum tilfellum --- þarf að ganga til peningastofnana, banka eða fjárfestingarsjóða og leggja þetta dæmi fyrir má auðvitað segja að það sé hárrétt sem hv. þm. er að leiða líkur að. Auðvitað eiga þá viðkomandi bankar eða peningamálastofnanir, fjárfestingarsjóðir, að segja: ,,Hingað og ekki lengra.`` (ÁSJ: Og sveitarstjórnir?) Ég veit ekki. Sveitarstjórnir geta kannski gert það með því að úthluta ekki lóð. En það er annar handleggur. Bankar og fjárfestingarsjóðir eiga að segja: ,,Nei, við teljum að þetta sé ekki góður bisness`` --- svo ég noti það ljóta orð --- ,,það er ekki þörf á þessu húsnæði og fleiri verslunum á þessu svæði.`` Og þeir ættu ekki að komast í það. En því miður geta menn farið aðrar leiðir. Það er þekkt í verslunarbransa í Reykjavík að gróði úr sjávarútvegi vegna sölu á kvóta er kominn í ákveðið verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og er þar á fullu. Það húsnæði er notað þannig að peningurinn, skjótfenginn gróði af sölu á kvóta, aflaheimildum, er farinn að flæða út í verslunarhúsnæðið.