Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:33:46 (72)

2002-10-03 12:33:46# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:33]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er alltaf hálfbroslegt að heyra hvernig sumir samfylkingarmenn, þar á meðal sá sem nú síðast talaði hér, bera litla virðingu fyrir þeim sem barist hafa í sjávarútvegi á undanförnum árum. Mér finnst mjög gott að sú tillaga sem hér liggur fyrir skuli komin fram vegna þess að hún sýnir ljóslega, rifjar upp þær tölur sem lágu fyrir á síðasta Alþingi um að matvælaverð almennt á Íslandi hefur hækkað meir en manni sýnist eðlilegt við fyrstu sýn og án þess að hafa fyllri gögn í höndum. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að Samkeppnisstofnun hefur lítið látið að sér kveða í þessum málum. Þó liggur það fyrir að einn verslunarhringur hefur ofurvald á matvælamarkaðnum, bæði í sambandi við innflutning á erlendum matvælum og auðvitað verðlagningu í smásölu þar með. Er athyglisvert í því sambandi að þessi sterka verslunarkeðja verðleggur vörur sínar mismunandi í mismunandi búðum þó að innkaupsverð á varningnum sé hið sama í öllum búðunum eins og menn vita.

Það er líka athyglisvert að þessi verslunarkeðja, Bónus, er yfirleitt alltaf með lægsta verð í öllum vöruflokkum á þeim vörum sem fram eru boðnar. Það skýrir fyrir okkur, venjulegu fólki, að samkeppni getur ekki verið mjög mikil í þessum geira ef sömu búðirnar eru alltaf með lægsta verðið á öllum vörum. Þá er auðvitað ljóst að samkeppni er engin til og væri mjög fróðlegt að fá um það glögga skýrslu frá Samkeppnisstofnun hvernig á því megi standa eða a.m.k. vísbendingar um það hvernig Samkeppnisstofnun lítur á það að þróun verslunar skuli vera með þessum hætti hér á landi.

Ég vil í því sambandi rifja upp að fyrir nokkrum árum sameinuðust Myllan og brauðgerð Samsölunnar. Þá greip Samkeppnisstofnun strax inn í. En ef við berum brauðgerð á Íslandi saman við Baugshringinn sjáum við auðvitað að þar er ólíku saman að jafna og makalaust að maður skuli hafa samanburð eins og þennan fyrir augunum, hvernig Samkeppnisstofnun grípur stundum inn í og stundum ekki og hefur með engum hætti gert það skiljanlegt hvernig á inngripum þeirra stendur.

Enn vil ég vekja athygli á því, herra forseti, að Samkeppnisstofnun lítur svo á að smásölu sé heimilt að verðleggja vörur undir markaðsverði ef henni svo sýnist. Þannig getum við t.d. hugsað okkur að Baugur kaupi brauð fyrir 100 kr. en selji í smásölu á 99 kr. Þar með myndast öfugur virðisauki þannig að ríkið verður í þessu tilviki að greiða með verðinu. Virðisaukinn skilar sér ekki í smásölunni sem ríkið hefur endurgreitt til framleiðandans. Verslunarhættir af þessu tagi eru bannaðir í öðrum löndum. Við vitum að oft var um þetta rætt á árum áður þegar verið var að minnka og auka niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum eftir því hvernig stóð á vísitölu. Þá sögðum við að slíkt hringl eyðilegði verðskyn neytenda og ylli því að ómögulegt væri að fylgjast með því hvort verð væri sanngjarnt í búðum.

Hið sama á auðvitað við ef Samkeppnisstofnun lætur einokunarhring af þessu tagi leika sér að því að fá ódýrar auglýsingar með því að selja vörur undir því framleiðsluverði eða innkaupsverði sem er hverju sinni. Ég hef oft gert þetta að umræðuefni hér, einmitt þennan þátt mála. Ég man eftir því einu sinni þegar verið var að selja kíló af kartöflum út úr búð á sex eða sjö kr. að ég spurðist fyrir um það hjá Samkeppnisstofnun sem landbrh. hvernig það mætti vera að slíkt gæti gengið. Mér er sagt að í Þýskalandi sé sú regla að ef smásali vilji hafa útsölu verði hann að tilkynna um það sérstaklega til yfirvalda til þess að rugla ekki lögmál markaðarins.

Það er líka hættulegt fyrir innlenda framleiðendur ef svo sterk smásala gerir það að leik sínum að hringla með framleiðsluverð á íslenskri framleiðslu þannig að stundum sé íslenska framleiðslan seld undir kostnaðarverði og stundum ekki sem auðvitað veikir trú Íslendinga á innlendri framleiðslu. Þess vegna eru þetta óheilbrigðir verslunarhættir sem hafa dafnað hér í skjóli Samkeppnisstofnunar.

Ég hef fylgst með umræðum nú og ég er glaður yfir því og ánægður að þingmenn Samfylkingarinnar hafa með ummælum sínum hér, bæði með óbeinum og beinum hætti, staðfest þá gagnrýni sem ég hef á liðnum árum haft á starfsemi Samkeppnisstofnunar án þess að víkja beint að þeirri stofnun. Þeir koma upp hver á fætur öðrum og undrast hvernig verðlag hefur þróast. Ég tók svo eftir, en biðst afsökunar ef það hefur verið misheyrn, að einn af þingmönnum Samfylkingarinnar hefur látið í ljósi undrun yfir að verðlag skyldi ekki hafa lækkað eftir að verslunarkeðjurnar stækkuðu. Efnislega var það á þessa lund. Er þá engin hagræðing fólgin í því að hafa þessar sterku verslunarkeðjur, engin hagræðing? Ef það er niðurstaðan að hinar sterku verslunarkeðjur eru einungis notaðar til þess að draga meiri hagnað til eigendanna en eðlilegt er þá er illa komið fyrir okkur Íslendingum og þá sannast þau orð sem Ólafur Björnsson prófessor sagði á sínum tíma þegar hann sagðist óttast að íslenski markaðurinn væri of smár til að við gætum notið frjálsræðis til fulls í viðskiptum. Við verðum að athuga þessi mál og við verðum að ætlast til þess að Samkeppnisstofnun, að eigin frumkvæði, sendi okkur Íslendingum skýrslu um það hvernig á því stendur að matvöruverð skuli ekki lægra hér á Íslandi en raun ber vitni eftir að Samkeppnisstofnun hefur látið það líðast að til svo mikillar hringamyndunar hefur komið í þessari verslunargrein.