Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:42:13 (73)

2002-10-03 12:42:13# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Halldóri Blöndal að það var Samkeppnisstofnun til vansa að hún skyldi heimila samruna Hagkaupa og Bónuss fyrir hartnær hálfum áratug. Ég tel að það hafi haft ákaflega óheillavænleg áhrif á þróun matvælaverðs í landinu.

Auðvitað er það þannig, eins og hv. þm. sagði áðan, að það gengur ekki að skapa stöðu sem er þannig að eitt tiltekið fyrirtæki hefur hreðjatak á matvælamarkaðnum. Ég hef gagnrýnt þetta mörgum sinnum og mér finnst gott að hv. þm. skuli með þessum hætti tjá svipaða skoðun. En mig langar að fá hann til að segja eitt alveg skýrt. Ég hlustaði á mál hans og mér fannst hann vera að segja að hann teldi að einokun ríkti á matvælamarkaði. Er það réttur skilningur minn að hv. þm. Halldór Blöndal sé þeirrar skoðunar að það ríki einokun á matvælamarkaði í smásölunni?