Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:48:42 (79)

2002-10-03 12:48:42# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:48]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram og það get ég staðfest, að ég hef séð að mikill munur er á verðlagi milli Hagkaupa og Bónuss, t.d. í þeim ágæta bæ Akureyri. Það er hárrétt.

Hv. þm. minntist ekki einu orði á það hér áðan sem ég spurði um og vildi heyra álit hv. 1. þm. Norðurl. e. á. Hér erum við að ræða um mun á vöruverði milli Norðurlanda og höfuðborgarsvæðisins. Ég hef sagt, og það vitum við öll sem búum úti á landi, að geysilegur munur er þar á. Ég hef séð allt að 108% verðmun milli höfuðborgarsvæðis og ákveðinna staða á norðausturhorni landsins, í kjördæmi hv. þm. Halldórs Blöndals. Ég segi: Þar ræður flutningskostnaðurinn langmestu. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm.: Hvað telur hann gera það að verkum að verðmunur er svona svakalegur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar?