Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:55:23 (85)

2002-10-03 12:55:23# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:55]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í mörgu tekið undir þau orð sem hv. þm. Halldór Blöndal lét falla í ræðu sinni. Hann fagnaði því sérstaklega að Samfylkingin væri farin að taka undir málflutning hans, m.a. hvað varðar einokun og fákeppni á matvælamarkaði. Mér fannst að í orðum hans lægi að þar væri um einhverja nýlundu að ræða. En þannig var að þegar hv. fyrrv. þm. Sighvatur Björgvinsson var ráðherra hafði hann frumkvæði að því að unnin væri skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækja, m.a. svo að betur mætti fylgjast með því að ekki væri um fákeppni að ræða eða einokun á markaði. Við fluttum aftur tillögu um að þessi skýrsla yrði endurnýjuð og viljum að hún sé uppfærð á hverju ári. Við teljum það nauðsynlega forsendu þess að hægt sé að hafa raunverulegt eftirlit, að Samkeppnisstofnun vinni slíka skýrslu. En Samkeppnisstofnun hefur hins vegar kvartað undan fjárskorti til að vinna slíkt verk. Er ekki hv. þm. sammála því að nauðsynlegt sé að það verði gert?