Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:37:27 (90)

2002-10-03 13:37:27# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör.

Varðandi kynferðislegt ofbeldi eru þessar fréttir sem borist hafa af könnun Hrefnu Ólafsdóttur hræðilegar. Við í ráðuneytinu höfum ekki séð neina skýrslu þar um eða gögn frá Hrefnu. Að vísu hefur verið sóst eftir því, bæði frá ráðuneytinu og Barnaverndarstofu. Við vitum ekki hvernig spurt var eða hvaða mælistika var lögð á svörin og við vitum heldur ekki hverjir það voru sem ekki svöruðu. Það er hægt að ímynda sér að þeir sem ekki hafa orðið fyrir neinum áföllum af þessu tagi hafi trassað það að svara. En jafnvel þó að þeir væru allir á þurru landi þá eru tölurnar samt óhugnanlegar þó að við tækjum ekki nema þessi 50%.

Að sumu leyti rímar þetta við þá reynslu sem fengist hefur í Barnahúsi um ýmsa þætti. Tveir þriðju fórnarlambanna eru undir tólf ára aldri. Það kemur heim og saman við hvernig tengslin við gerandann eru yfirleitt, að gerandinn sé yfirleitt í fjölskyldunni eða fjölskylduvinur. Fjórði partur gerenda er undir tvítugu og fimmti partur undir 18 ára.

Rannsóknir á dönskum brotamönnum sýna að yfir 50% þeirra hófu brotaferil sinn yngri en 18 ára. Það er auðvitað mjög mikilvægt að reyna að þróa meðferð á þessum strákum. Á vegum Barnaverndarstofu er eitt meðferðarheimili sem sérstaklega einbeitir sér að þess háttar meðferð. Í ráði er að koma upp göngudeild í Barnahúsi fyrir þá sem sýna einhverja hneigð í þessa átt.

Varðandi sjálfsvígin þá liggur fyrir skýrsla frá landlæknisembættinu. Það er eðlilegra að ræða hana við heilbrrh. en hún er vissulega skuggaleg. Þetta virðist ganga í faröldrum og einstöku ár skera sig úr og jafnvel landsvæði. Það er átak í gangi á vegum landlæknisembættisins til þess að reyna að stemma stigu við þessu en ég held að það væri ráð, í framhaldi af þessari umræðu og þessari skýrslu, að reyna að koma upp rannsóknarnefnd dauðsfalla barna sem rannsakaði einfaldlega dauðsföll allra barna sem látast. Þar gætu verið fulltrúar barnaverndaryfirvalda, landlæknis, lögreglu og jafnvel ákæruvalds. Starf svona rannsóknarnefndar gæti orðið til forvarna.

Ef Barnaverndarstofa fær grun um að unglingur eða barn sé að hugleiða sjálfsvíg er sett í gang sérstakt ferli til að reyna að fylgjast með og koma í veg fyrir að eitthvað komi fyrir. En þessir unglingar hafa það yfirleitt sammerkt að þeir hafa lent í félagslegri einangrun eða einelti eða í vímuefnanotkun. Stuðningur foreldra skiptir geysilega miklu máli og ekki verður of mikil áhersla lögð á hlutverk fjölskyldunnar og hinna nánustu. Í þessu sambandi er afar mikilvægt að styðja ungmennið.

Varðandi brottfallið úr skóla er það náttúrlega málefni sem heyrir undir annað ráðuneyti. Ég vil þó taka fram að framhaldsskólanám er ekki skylda. Það er frjálst val. Könnunin sem Jón Torfi Jónasson prófessor byggir á var gerð á einum árgangi. Ýmislegt getur orðið til þess að krakkar hætti við framhaldsnám. Samkvæmt Gallup-könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum lét tíunda hver bændafjölskylda ekki barn í framhaldsnám eða barn hvarf frá framhaldsnámi af efnahagsástæðum. Þarna getur framboð á vinnu, breyttar neysluvenjur, námsörðugleikar og viðhorf fjölskyldu líka átt sinn þátt.