Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:49:46 (94)

2002-10-03 13:49:46# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Á skömmum tíma hafa komið fram alvarlegar vísbendingar eða staðfestingar á að mjög margar brotalamir eru í velferðarkerfi okkar. Þetta á ekki síst við um þá þætti sem snúa að börnum og unglingum. Málefni barna og unglinga heyra ekki undir einn ákveðinn málaflokk eða ráðherra, stofnanir eða stjórnsýslustig og því getur verið erfitt að taka á þeim nema til komi vilji til samstarfs og að deila ábyrgð.

Samþætting mismunandi þjónustuaðila eins og skóla, heilsugæslu, þjónustu við fatlaða, lögreglu, frjálsra félagasamtaka og félagsþjónustu sveitarfélaga er að mestu í lausu lofti. Þessu verður að breyta og finna samnefnara ef það á að koma á formlegu samstarfi allra þessara aðila í hverju sveitarfélagi eða skilgreindu svæði svo hægt sé að fylgja málum eftir. Það að ekki skuli vera formlegt samstarf þeirra aðila sem oftast koma að félagslega erfiðum málum, veldur því að mál ná oft að þróast á neikvæðan hátt, mál sem hægt hefði verið að bæta með betra samstarfi og fleiri félagslegum úrræðum.

Herra forseti. Ekki þarf að taka fram að mörg þessara mála leysast ekki eingöngu með tilkomu betra samstarfs. Það þarf fjármagn. Það þarf aðgengi að fagfólki svo að dæmið gangi upp.

Sveitarfélögin hafa á skömmum tíma tekið að sér stóran hluta félagsþjónustunnar í landinu. Þau eru fjárhagslega og faglega misvel sett til þess að sinna sívaxandi þörfum og auknum kröfum um félagsleg úrræði. Fjárhagsstöðu þeirra verður því að styrkja frá því sem nú er. En á síðustu árum hefur myndast menningar- og efnahagsleg gjá sem virðist vera að víkka milli fjölskyldanna í landinu og það kemur ekki síst niður á börnunum. Þetta hefur berlega komið fram í mörgum könnunum sem snerta hagi barna og fjölskyldufólks. Í því sambandi má nefna að þeim foreldrum fer fjölgandi sem ekki hafa efni á að mennta börn sín eða borga fyrir tómstundastarf. Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er mikið. Neysla vímuefna er mikil. Vanlíðan og depurð virðist aukast bæði hjá fullorðnum og börnum og svo mætti lengi telja.