Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:54:27 (96)

2002-10-03 13:54:27# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra hv. þm. til hv. frummælanda. Okkur hafa nýverið borist til eyrna fréttir af uggvænlegum skýrslum sem hér hafa verið ræddar og þær tengjast allar saman.

Menn hafa ekki rætt hér þá þróun sem hefur orðið í þjóðfélaginu að börn fara að heiman allt niður í sex mánaða aldur og fjölskyldutengslin verða ekki eins náin og þau voru hugsanlega áður. Einnig lifa börn meira og minna í rafrænum heimi. Ég hugsa að yfir helmingur vökutíma venjulegs barns á Íslandi sé í rafrænum heimi, sjónvarpi, vídeói, tölvu og netinu. Þetta hlýtur að hafa mikil áhrif og þetta má líta á sem ákveðna tilraun sem verið er að gera á heilli kynslóð um allan heim.

Þá kemur til nýorðinn fíkniefnavandi heimilanna, foreldranna, sem hlýtur að skaða viðkomandi börn afskaplega mikið. Einelti í skólum er svo sem ekki nýtt vandamál en það stafar líklega af agaleysi. Síðan er námsleiði mjög ríkur meðal barna í skólum.

Öllu þessu þurfum við að vinna bug á. Við hv. þm. setjum reglurnar sem þjóðfélagið vinnur samkvæmt. Við höfum gert ýmislegt. Við höfum t.d. komið á fæðingarorlofi sem ætti að gera foreldrum kleift að mynda nánari tengsl við börn sín. Við höfum komið á foreldraorlofi. Við höfum afgreitt barnaverndarlög og við erum enn að vinna og þurfum að gera enn meira. En þrátt fyrir þetta sem við ræðum hér í dag, vandamálin og lausn þeirra, megum við ekki gleyma því að íslensk ungmenni eru almennt séð mjög mannvænleg og ég hef mikla trú á framtíðinni í þeirra höndum.