Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:13:25 (102)

2002-10-03 14:13:25# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Athuganir Rannveigar Guðmundsdóttur á þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin og Evrópusambandslöndin hafa leitt ýmislegt athyglisvert í ljós eins og hér hefur verið rakið mjög ítarlega í umræðunni í morgun, m.a. með vísan til kannana sem norska Hagstofan hefur látið gera. Þar kemur í ljós að matvælaverð hér á landi á árinu 2000 var 69% hærra en í Evrópusambandslöndunum sem borið var saman við. Talan er yfirleitt á bilinu 60--80% þegar einstakir matvælaflokkar eru skoðaðir fyrir utan sjávarafurðir þar sem munurinn er minni.

Þetta er nú staðreynd málsins, herra forseti, og ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að mér þykir svolítið einkennilegt hversu hvumpnir sumir þingmenn eru gagnvart þessari tillögu. Einkum vekur undrun mína hversu hvumpnir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru. Ég hlustaði reyndar ekki á ræðu hv. þm. Steingríms Sigfússonar en ég hlustaði á ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar í morgun, í andsvari líklega, þar sem hann kom inn í þessa umræðu. Mér þótti sem ekki væri mikill vilji til að kafa ofan í kjarna málsins, herra forseti.

Hv. þm. þóttist sjá þetta allt í hendi sér, það væri alveg augljóst hverjar skýringarnar væru, rakti þær í stuttu máli og sagði að það þyrfti bara að kippa þessu í liðinn.

[14:15]

Herra forseti. Ég hélt að það væri markmið og eitt stærsta kosningamál Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að stofna hér velferðarstjórn. Er það ekki stór liður í velferðinni hvernig matvælaverði er háttað í landinu? Og er þá ekki eðlilegt, herra forseti, að í því samhengi sé farið ofan í það mál líkt og hér er verið að gera?

Herra forseti. Ég vil minna á að tillagan gengur ekki bara út á þessa Evrópusambandstilvísun sem mönnum er greinilega mjög erfitt um, heldur gengur hún út á að fram fari nákvæmur samanburður á framleiðslunni, á verslunarháttunum og á þeim skilyrðum sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun eru búin í hverju landi fyrir sig. Síðan á líka að reyna að draga fram hvort ólík tenging landanna við Evrópusambandið skipti einhverju í þessum efnum.

Herra forseti. Ekki er óeðlilegt að beðið sé um þessa nálgun í ljósi þess að þau tvö ríki sem eru langhæst í matvælaverðinu eru bæði fyrir utan Evrópusambandið.

Mér dettur hins vegar ekki í hug að halda því fram að ástæðan fyrir því sé eingöngu innganga í Evrópusamandið sem slík. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann, a.m.k. ekki hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, halda því nokkurs staðar fram að það sé þannig. Ég hef meira að segja heyrt hana halda því fram að það sé alls ekki beinlínis þannig.

Og það er eflaust laukrétt sem hæstv. forsrh. hefur sagt að þetta þarf ekki að vera svona og við þurfum ekkert að ganga í Evrópusambandið til þess að breyta þessu. Það er eflaust alveg hárrétt.

Herra forseti. Þar sem það er þannig að samkeppni og forsendur á markaði, samkeppnisumhverfið og opinberar aðgerðir ráða miklu um matvælaverð, það held ég að við getum öll verið sammála um, þá hlýtur það að skoðast að hvaða leyti aðgerðir stjórnvalda geti haft áhrif þarna. Og þá hlýtur maður að spyrja, herra forseti, úr því að þetta er svona lítið mál eins og hæstv. forsrh. segir og ekkert mál að kippa þessu í liðinn, af hverju menn eru þá ekki löngu búnir að gera það. Út af hverju er þetta þá staðreyndin? Þessar tölur eru reyndar frá árinu 2000. En hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur bent á að samkvæmt þeim vísbendingum sem hún hefur sem eru nýrri tölur, þá bendir ekkert til þess að þetta hafi breyst í heildina séð.

Við hljótum því að viðurkenna það, herra forseti, hver svo sem afstaða okkar er til Evrópusambandsins, að þetta er vandamál sem við þurfum að takast á við. Og hvað er eðlilegra, herra forseti, en að leita orsakanna og reyna að grafast fyrir um vandann? Það er ekki eins og við séum með tillögunni að leggja til að við göngum í Evrópusambandið til þess að kanna hvort matvælaverðið breytist. Ég vil vekja athygli á því.

Ég tek undir það, herra forseti, að mér finnst svolítið einkennilegt að horfa á þá hv. þm. sem hafa frekar lagt áherslu á það að auka hér velferð fólks og ekki síst að gera þeim sem kannski minnst hafa milli handanna lífsbaráttuna auðveldari --- og hvað er þá líklegra en einmitt matvælaverðið? Hvað skiptir meira máli í buddu heimilanna en einmitt matvælaverðið?

Ég undrast í raun og veru að menn bregðist við með þessum hætti eingöngu vegna þess að bent sé á það að Evrópusambandsaðildin sé með öðrum hætti í þessum tveimur löndum en í þeim löndum sem borin eru saman.

Herra forseti. Að öðru leyti held ég að við þurfum að horfast í augu við þetta. Niðurstöðurnar eru mjög sláandi fyrir Noreg og Ísland og þessi umræða hefur farið mjög hátt í Noregi. Menn eru að velta þessu fyrir sér þar. Noregur er mjög ríkt land og núna horfa stjórnvöld fram á það að straumur Norðmanna fer yfir landamærin, yfir til hinna Norðurlandanna, til að kaupa sér mat. Matvælaverð er mjög hátt í Noregi og fólk reynir að auðvelda sér eða gera rekstur heimilanna örlítið ódýrari með því að fara yfir landamærin til að kaupa sér mat. Þetta er raunverulegt vandamál sem menn telja að þurfi að takast á við. Og auðvitað verðum við að horfast í augu við það líka. Þetta skiptir sköpum fyrir það hversu vel fólki líður að búa á Íslandi. Þetta getur haft gríðarlega mikið að segja. Og við þurfum einfaldlega að bregðast við og við þurfum að leita orsakanna og við þurfum að reyna að finna leiðir til þess að bæta úr.

Að við ættum að geta gert þetta sjálf, þá vil ég leggja á það sérstaka áherslu að ég lít ekki svo á, þó ég sjálf hafi þá skoðun að fleiri kostir en gallar geti fylgt því ef við mundum ganga inn í Evrópusambandið að því tilskildu að viðunandi samningar mundu nást í sjávarútvegi, þá mun ég ekki reyna að halda því fram að við Íslendingar getum ekki komist af öðruvísi eða að það sé eitthvert svartnætti sem bíði okkar ef við göngum ekki inn í Evrópusambandið, og það er ekki heldur í þessum efnum. En það er mikið sem við getum gert og þar er kannski mikilvægt að tryggja það að samkeppni á markaði sé virk.

Af því að það hefur verið nefnt hér í umræðunni í dag, þá er það líka svolítið einkennilegt þegar menn tala um það í orði, eins og t.d. margir sjálfstæðismenn hafa gert, að mikilvægt sé að tryggja samkeppni, að í hvert sinn sem Samkeppnisstofnun og samkeppnisyfirvöld nota þær heimildir sem mörgum þykja þó kannski heldur veikar til þess að reyna að tryggja samkeppnina, þá verður allt vitlaust. Þetta verður að fara saman, herra forseti, ef við viljum tryggja virka samkeppni á markaðnum og tryggja það að hún sé raunveruleg, þá þurfa samkeppnisyfirvöld að hafa ríkar heimildir til að sjá til þess að svo sé.

Það er því ekki hægt að segja bara sem svo: ,,Við getum alveg reddað þessu sjálf.`` En svo í hvert skipti sem á að nota þau tæki sem hægt er að nota þá má ekki gera það.