Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:23:55 (104)

2002-10-03 14:23:55# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því og ég geri ráð fyrir að hv. flm. tillögunnar fagni því sérstaklega að menn séu tilbúnir að taka þátt í umræðunum og koma með ábendingar um eitthvað sem mætti betur fara í efni tillögunnar. En ég efast nú um, herra forseti, að það geri þennan samanburð auðveldari að vera að víkka hann út eins og mér þótti málflutningur hv. þm. ganga út á, að víkka hann út þannig að það væri nánast bara allt saman undir í því. Það sem verið er að fókusera á hér er matvælaverð. Það væri síðan fróðlegt að gera annars konar samanburð á kaupmætti á einhverjum öðrum þáttum sem skipta miklu máli í buddu heimilanna. En hvort það er hægt að taka slíkan samanburð allan inn í einhverja eina tillögu, ég sé það ekki fyrir mér, herra forseti, en ég hins vegar þakka vinsamlegar ábendingar í þá veru.

Hvað varðar þetta síðasta með matarskattinn og þá umræðu þá held ég að það sé kannski betra fyrir okkur að reyna að halda okkur nokkurn veginn í nútímanum, því ég held, herra forseti, að við séum þrátt fyrir allt, hv. þm. Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sammála um að það hljóti að vera göfugt markmið þeirra sem kenna sig við félagshyggju að reyna að lækka matvælaverð, ef það er eitthvað sem við getum haft áhrif á. Ég held því að við ættum ekki að vera að karpa um það hér. Um þetta erum við væntanlega sammála, að við viljum gjarnan sjá matvöruverð lægra fyrir íslenskar fjölskyldur.