Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:03:27 (118)

2002-10-04 11:03:27# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hæstv. fjmrh. leggja út af hinum mikla árangri og hinni traustu efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Sjálfumgleði hæstv. ráðherra leyndi sér ekki. Það var hins vegar mun athyglisverðara að taka eftir því að hvergi var minnst á það hjálparlið sem kom ríkisstjórninni til aðstoðar þegar hvað verst stefndi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna, herra forseti, er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi ekki orðið var við það þegar aðilar vinnumarkaðarins, fyrir tilstuðlan og undir forustu Alþýðusambands Íslands, tóku höndum saman, þegar stefndi í óðaverðbólgu og vextir voru enn á uppleið, og beittu sér fyrir umbyltingu í efnahagslífi þjóðarinnar.

Telur hæstv. fjmrh. ekki ástæðu til þess nú þegar hann fjallar um fjárlög fyrir árið 2003, þegar áhrif aðgerða þessara aðila koma hvað best fram, að þakka þeim þó ekki væri nema með einni lítilli setningu?