Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:32:21 (124)

2002-10-04 11:32:21# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í mikla umfjöllun um ríkislögreglustjóraembættið. Hins vegar er alveg augljóst mál, eins og ég nefndi í ræðu minni, að þetta er eitt af þeim embættum sem þanist hafa mjög út. Ég spurði hæstv. fjmrh. eftir því hvar hagræðingin og sparnaðurinn væru.

Auðvitað veit ég fullvel að ýmislegt hefur verið fært undir þetta embætti og mér skilst að hugmyndir séu uppi um að leggja töluvert meira undir það þannig að enn á að halda áfram. En spurningin gekk hins vegar út á að fá skýringu á því hvar sparnaðurinn væri og hvar hagræðingin við þetta allt saman er.

Ég vil hins vegar leiðrétta hæstv. fjmrh. ef hann hefur skilið orð mín svo að ég væri að gefa til kynna að fjmrn. væri ekki traustsins vert varðandi þær áætlanir sem hér liggja fyrir. Ég tek undir með hæstv. fjmrh. að það er mjög athyglisvert hversu nálægt allar spárnar eru hver annarri. Það sem ég var að segja var að áður fyrr hefðu komið úr fjmrn. ýmsar upplýsingar sem líktust meira áróðri en faglegri umfjöllun. Ég tók það sérstaklega fram að ég vonaðist til að menn stæðu vel undir þessu nýja hlutverki sem þeir hafa fengið.

Það er hins vegar önnur nálgun varðandi þetta mál sem ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um. Þegar frv. um að leggja Þjóðhagsstofnun niður var til umræðu í þinginu var gjarnan rætt um það að við þingmenn fengjum aðgang að annarri stofnun til þess að láta vinna þá vinnu sem Þjóðhagsstofnun gerði gjarnan fyrir okkur. Þá er spurningin um hvort við getum lagt fyrir ákveðnar forsendur sem við viljum fá útreiknaðar. Því miður, herra forseti, höfum við, a.m.k. við sem sitjum í fjárln., ekki orðið vör við að við höfum fengið neinn aðgang að einni eða neinni stofnun eða heyrt getið um að ætlaðir hafi verið fjármunir til að vinna slíka vinnu.