Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:36:19 (126)

2002-10-04 11:36:19# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að ég taldi hvergi maðk í mysunni og gaf alls ekki til kynna að slíkt væri. Ég var heldur ekki að tala um það, herra forseti, að fjmrn. legði það í vana sinn að leggja fyrir þingið einhverja áróðurspappíra. Það sem ég átti við var að á heimasíðu fjmrn. hafa að sjálfsögðu æðioft komið viðbrögð frá fjmrn. við ýmsum hlutum sem oft hafa fremur líkst áróðri en faglegum vinnubrögðum. Ég er ekki að segja að það hafi verið nákvæmlega sömu aðilar og vinna að þjóðhagsspánni. (Fjmrh.: Því er mótmælt.) Því er mótmælt af hæstv. ráðherra. Við skulum þá bara í rólegheitum einhvern tíma skoða heimasíðuna hjá ráðuneytinu og benda hæstv. ráðherra á nokkur atriði sem hafa a.m.k. að mínu mati fremur nálgast áróður en fagleg vinnubrögð.

Herra forseti. Varðandi niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar og hvað eigi að koma í staðinn fyrir þjónustu við þingmenn fagna ég því auðvitað að hæstv. fjmrh. bendir okkur á að við getum hugsanlega komist í sjóði forsrn. til að auka þjónustu við þingið. Ég geri ráð fyrir því að við munum nýta okkur það eða þá að fjárln. muni í starfi sínu hugsanlega færa einhverja fjármuni frá þessum lið hjá forsrn. yfir til þingsins.