Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 12:36:07 (131)

2002-10-04 12:36:07# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[12:36]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ummæli hv. þm., formanns fjárln., Ólafs Arnar Haraldssonar, orðrétt eftir. Hann sagði, og því má fletta upp í upptöku af umræðunum, að óvissa ríkti um margar forsendur fjárlagafrv. Ég gerði ekkert annað en að vitna til þessara orða.

Það var fyrir nokkrum dögum, í síðustu viku hygg ég, að farið var fram á það formlega af formanni þingflokks Frjálslynda flokksins að við fengjum upplýsingar um fjárlagagerðina. Því var tekið mjög seinlega og þýðir ekkert um að fást en allra síðustu dægrin hefur formaður þingflokks frjálslyndra fengið að hlýða á útskýringar. En það er auðvitað ekki það sama og að hafa aðstöðu til að gaumgæfa þessi mál frá því á haustdögum. Ég fór ekki fram á mikið þegar ég fór fram á að 1. umr. fjárlaga yrði kannski seinkað um fimm, sex daga eða svo, til að okkur sem ekki eigum aðild að fjárlagagerðinni og öðrum þingmönnum utan fjárln. gæfist betri kostur á að kynna sér innihald þessa þýðingarmesta frv. sem að jafnaði liggur fyrir til afgreiðslu á þinginu.