Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:06:23 (138)

2002-10-04 13:06:23# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:06]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt í ræðu minni að mótmæla þessari málsmeðferð. Ég mótmælti því að gerð væri grundvallarbreyting án þess að það væri rætt, a.m.k. í mínum þingflokki, þingflokki Sjálfstfl. Ég kannast aldrei við að þetta hafi verið undir okkur lagt og þess vegna mótmæli ég.

Auðvitað er ekki hægt að leggja öll mál fyrir þingflokkana nákvæmlega. Auðvitað er það ekki gert. En ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni vegna þess að hér er um stórkostlega breytingu að ræða sem ég kannast ekki við að hafi fengist nokkurn tíma samþykkt. Það liggur bara fyrir og þess vegna geri ég það.

Hins vegar vil ég leiðrétta hann með það að gerðar hafi verið einhverjar stórkostlegar samþykktir hér um byggðamál. Ég kannast ekki við þær. (Gripið fram í.) Gerð var samþykkt um byggðaáætlun sem var svona almennt snakk út og suður, og ég hafði orð á því hér í þingsal að þar væri hvergi hönd á festandi. Engar sérstakar samþykktir voru þar á gerðar, alls ekki, heldur bara fallegt tal um að gera hitt og þetta. Og ég gerði athugasemdir við það vegna þess að það var mikið fráhvarf frá þeirri byggðaáætlun sem hafði verið í gildi áður og hafði reynst okkur löngum drjúg í fjárln. þingsins til þess að festa kjöt á beinin þegar við vorum að afgreiða fjárlagafrumvörpin, mjög drjúg og mjög góð. Ég saknaði þess að þarna hefði orðið breyting á.

Að sjálfsögðu kemur þetta til umræðu hér en mér fannst rétt að geta þess að ég kannast ekkert við að félagar mínir eða ég höfum gengist undir þetta. Þess vegna mótmæli ég þessu og segi frá því hér.