Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:08:07 (139)

2002-10-04 13:08:07# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:08]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. staðfestir að um þennan málaflokk sé a.m.k. ekki samstaða í stjórnarliðinu, og ýtir það enn frekar undir það sem við, ýmis í stjórnarandstöðunni, höfum bent á, að þetta fjárlagafrv. eigi trúlega eftir að taka meiri breytingum en mörg fjárlagafrv. sem við höfum séð fram að þessu.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því líka að atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni --- sem hefur nú verið reynt að byggja upp nokkur undanfarin ár --- fá stöðugt rýrari fjárframlög, og sama þróun heldur áfram miðað við fjárlög næsta árs. Það er því alveg augljóst mál að það verður að taka verulega á í þessum málaflokki og ég held að það sé alveg ljóst að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur örugglega stuðning frá, trúi ég, öllum minni hluta fjárln. í þessari baráttu sinni. Ég tek undir það með honum að hún hefur fært okkur nokkurt lið, sú byggðaáætlun sem var áður. Nú reynir vissulega á það plagg, sem samþykkt var hér í fyrra og við getum deilt um hvað kalla ber, en við munum að sjálfsögðu láta á það reyna hvort eitthvað er hægt að halda þar fast í til þess að nýta okkur við það að auka fjárframlög til þessa málaflokks.