Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:57:13 (154)

2002-10-04 13:57:13# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. heilbrrh. að hann liti þannig á að stóru sjúkrahúsin eða Landspítali -- háskólasjúkrahús væri endastöðin í heilbrigðisþjónustunni. Ég tek undir þá skoðun hans. Engu að síður streyma þangað verkefni sem ættu að vera annars staðar, m.a. hjá heilsugæslunni og á dvalarheimilum eða öldrunarheimilum. Það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra að hann teldi að í þessu frv. hefði farið fram leiðrétting á rekstrargrunni háskólasjúkrahússins. Mínar spurningar eru: Eftir hverju var farið? Er þá búið að skilgreina skýrt hver verkefni þessa sjúkrahúss eru? Ef svo er ekki þá er rekstrargrunnurinn óleiðréttur.