Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:00:32 (157)

2002-10-04 14:00:32# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hlutverk Landspítala -- háskólasjúkrahúss fari ekkert á milli mála. Það er, eins og hv. þm. er sammála mér um, endastöð í heilbrigðiskerfinu í landinu. Það er kennslustofnun. Það er háskólasjúkrahús og það er veigamikið hlutverk. Það hefur m.a. verið til skoðunar hvort reka eigi allar þær deildir sem þar eru undir einum hatti. Við munum eftir því að ég gaf grænt ljós á það í umræðum að gerður yrði þjónustusamningur um t.d. tæknifrjóvgunardeild. En ég held að í öllum megindráttum liggi stærstu og veigamestu hlutverk þessarar stofnunar skýrt fyrir. Veigamesta hlutverkið er að vera endastöð í heilbrigðiskerfinu og brjóstvörn í þeirri tækni sem við erum að innleiða þótt sjálfstætt starfandi sérfræðingar hafi líka innleitt mikla tækni í sínum störfum.