Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:01:58 (158)

2002-10-04 14:01:58# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Aðeins smáathugasemd vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan um kostnað í heilbrigðiskerfinu. Ég hef margsinnis spurt að því hvernig standi á svona háu lyfjaverði á Íslandi, að það skuli vera þannig að lyf úr lyfjabúð á Spáni án lyfseðils er á verulega lægra verði en sams komar lyf á Íslandi með niðurgreiðslu frá Tryggingastofnuninni. Þetta er undarlegt og því þarf að svara hvers vegna þetta er. Ég ætla ekki að nota meira af tíma mínum til að ræða þetta. Ég hef sett þessar spurningar fram áður og það er ástæða til þess að inna eftir þessu.

Herra forseti. Nýlega voru hafnar sýningar á kvikmynd Baltasars Kormáks, Hafinu, eftir leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar sem ritaði það verk fyrir 12 árum síðan. Ég vil leyfa mér að hvetja sem flesta landsmenn, a.m.k. alla alþingismenn og raunar kvótakóngana á Íslandi til þess að sjá þessa kvikmynd. Hún lýsir á nöturlegan hátt grundvallarmistökum sem gerð voru við lögfestingu fiskveiðistjórnarlaganna núgildandi á Alþingi Íslendinga. Ef til vill má tengja saman þetta fjárlagafrv. og þema myndarinnar sem ég er að vitna í. Þar á ég við að í upphafi skyldi endinn skoða.

Miklir brestir eru í þessu fjárlagafrv. hvað það varðar að rétta af stöðu heilbrigðiskerfins. Ekki nóg með það, það eru augljósir gallar á fjárlögum vegna framhaldskólanna. Ekki er gerð tilraun til að koma til móts við þær kröfur sem fram koma vegna vöntunar á löggæslu á fjölmörgum stöðum á landinu. Þannig má halda áfram með hvern liðinn á fætur öðrum í fjárlagafrv. Mér virðist ekki vera gerð tilraun til stjórnunaraðgerða á mörgum sviðum, enda þenst ríkiskerfið nánast hömlulaust út.

Herra forseti. Það er árvisst að fjárlagafrv. er lagt fram á fyrsta fundi Alþingis. Hæstv. fjmrh. kynnir frv. fyrir fjárln. að morgni þess dags og kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Hæstv. fjmrh. leggur síðan mikið á sig þann daginn með því að kynna helstu aðilum atvinnulífsins og almenningi frv. í fjölmiðlum. Hæstv. fjmrh. var í prímadonnuviðtali í Kastljósi og Íslandi í dag sl. þriðjudagskvöld með sólskinsbros og frv. sem ég leyfi mér að kalla glópagull. Ég geri það vegna þess að það er svo margt aðfinnsluvert í frv. En vissulega er framsetningin með 10,7 milljarða afgangi ekkert smáræði. En það er líka rétt að muna að 8,5 milljarðar af því eru áætlaðir vegna sölu eigna. En þegar út af stendur að leiðrétta 2 milljarða fjárvöntun á sjúkrahúsunum, allt að 600 millj. rekstrarvanda á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og 300--400 millj. kr. halla í framhaldsskólakerfinu auk rekstrarvanda þá er verið að sýna glansmynd sem má líkja við glópagull.

Herra forseti. Löggæslumálin eru svo sérþáttur sem ég hef ekki treyst mér til að meta til fjármuna en mun geta metið í meðförum fjárln. á frv. En það er rétt að minna á að vegna skorts á lögreglumönnum eru alvarlegar kvartanir frá fjölmörgum stöðum á landinu sem ekki hafa farið fram hjá fjárln. Lögreglumaður einn á ferð getur ekki sannað umferðarlagabrot í mörgum tilvikum vegna þess að menn eru jú einir á ferð og þar að auki með svo gífurlega stórt landsvæði eða vegsvæði að þeir eiga ekki möguleika á að sinna því. Það má minna á að eitthvað er brösótt með bílabanka ríkislögreglustjóra þegar málin standa þannig að sýslumenn velta því fyrir sér hvort fjárhagur þeirra leyfi að vera með almennilegan bíl og einn lögreglumann eða lélegan bíl og tvo lögreglumenn.

Ég minni svo á fréttir, herra forseti, um löggæsluleysi í Mosfellsbæ, í Garði, í Grindavík og svo má lengi upp telja. Þetta eru alvarlegir gallar sem verður að laga.

Herra forseti. Í fjárlagafrv. virðast menn hafa gleymt því að fjölmargir einstaklingar á bótum búa við mánaðarlega fjárvöntun sem nemur a.m.k. 25 þús. kr. á mánuði. Varðandi þetta eru menn að tala um að setja á laggirnar samráðshóp til að skoða málin og reyna að leiðrétta þetta á einhverju árabili. Ég verð að segja að mér finnst þetta háttalag skrípaleikur. Menn ættu að setjast niður við lagfæringar til þeirra sem eiga ekki afkomumöguleika með lægstu bætur og finna út töluna fyrir næsta sunnudag, leiðrétta strax og setja um það lög að ekki skuli tekinn skattur af lágmarksframfærslulífeyri.

Herra forseti. Þessar örfáu áminningar sem ég nefni sýna að ekki er allt gull sem glóir þó að gult sé, samanber þessa umgerð um fjárlagafrumvarpspappírinn. Ég leyfi mér, herra forseti, að minna á að þegar frv. fyrir árið 2001 var lagt fram var því fylgt svo fast eftir með orðum hæstv. fjmrh. að hann talaði um heimsmet í fjárlagaafgangi sem einnig má nefna tekjujöfnuð. Ég leyfði mér þá að segja að það frv. væri ekki annað en fjarskafallegt og það er auðvitað niðurstaðan samkvæmt nýlegum ríkisreikningi. Tekjujöfnuður fyrir árið 2001 og reyndist vera 8,6 milljarðar kr. En þar var gert ráð fyrir 34 milljörðum í upphafi. Það var það sem ég var að rekja hér, að ekki er allt sem sýnist.

Muna menn eftir því að tekjuhallinn á árinu 2000 var 4,3 milljarðar? Ef ég man rétt er það allt önnur niðurstaða en menn lögðu af stað með. Er að furða þótt maður beri brigður á áætlanir sem verið er að leggja upp með núna miðað við það sem ég hef áður sagt í mínu máli.

Virðulegur forseti. Ég mun fylgja þessu fast eftir í 2. umr. um fjárlög. Þá mun fyrst koma í ljós hvort ekki sé rétt sem ég hef sagt og hvort ekki sé bara hægt að skoða það í fyrri ræðum mínum um fjárlög. En staðreyndin er sú að eftir framlagingu frv. á eftir að fjalla um það í tæpa þrjá mánuði og það er alveg augljóst nú að það mun taka verulegum breytingum og verða í allt öðru formi en það er nú þegar yfir lýkur.

Herra forseti. Það er mikil blekking að sú glansmynd sem ríkisstjórnin dregur upp sé það sem almennt á við í íslensku þjóðfélagi. Bótaþegar, launþegar með lægstu laun og nú hópur fólks sem misst hefur vinnu og þar með laun sem teljast meðallaun og há meðallaun --- fólk sem hefur haft á bilinu 280--400 kr. á mánuði er að missa vinnu í stórum stíl. Þar er um að ræða fólk með háskólamenntun, m.a. náttúrufræðinga, fólk með góða tæknimenntun og fólk í hærra launuðum iðnaðarstörfum --- þetta fólk býr nú við mikla óvissu. Það hefur misst laun og getur ekki staðið undir því lífsmunstri sem góðar tekjur höfðu skapað. Fólk stendur ekki undir íbúðum sínum, bílum og öðru. Niðurstaðan er eignasala eða það sem er enn verra, nauðungarsala. Hver kannast ekki við, herra forseti, auglýsingar um nauðungaruppboð? Þetta eru bara tveir dagar úr Dagblaðinu. Ef menn fylgjast með eru þar nánast á hverjum degi hálfsíður með nauðungarsölum sem stafa af því ástandi sem er að skapast og á, að því er fróðir menn segja mér, eftir að verða verra. Þess vegna segi ég að hér er ekki á ferðinni annað en það sem áður fyrr var kallað glópagull. Það er sem sagt ákveðin blekking. Menn héldu að það sem glampaði á í mýrum væri gull. En svo var í raun ekki.