Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:16:03 (161)

2002-10-04 14:16:03# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að nauðsynlegt er að reyna að líta raunsætt á hlutina. En það er auðvitað þannig þegar verið er að áætla fyrir stórfelldum tekjum af eignasölu, sem vissulega er óviss, að þá er ekkert fast í hendi í þeim efnum. Þetta vitum við náttúrlega og auðvitað gera menn áætlanir sínar út frá því að menn gera sér grein fyrir þeirri óvissu sem þar er.

En þetta hefur ekki alltaf verið með þeim hætti sem hv. þm. nefndi. Af hverju nefndi hann ekki árið 1999, síðasta gula frv., í sama lit og þingmaðurinn hefur hér mikið talað um? Þá voru fjárlög afgreidd með 2 milljarða kr. afgangi. (GE: Ég minnist þess.) En niðurstaðan varð, í rekstraruppgjöri ríkissjóðs, 23,6 milljarðar. (GE: Vegna ...) Og ef eingöngu er litið á tekjuafgang, að frádregnum óreglulegum liðum, 26,6 milljarðar. Þetta var auðvitað langt umfram það sem fjárlögin ráðgerðu vegna þess að þá kom óvænt inn meiri söluhagnaður af eignum en við höfðum gert ráð fyrir.

Þegar við erum með svona stórar tölur sem falla á einn eða tvo liði verða menn að vera undir það búnir að þeir geti hreyfst til. Þess vegna er líka mikilvægt, alveg eins og ég held að þingmaðurinn hafi verið að segja hér, að það skuli vera allríflegur afgangur, burt séð frá því hvernig fer með tekjur af eignasölu.