Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:30:15 (164)

2002-10-04 14:30:15# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Sjaldan bregður mær vana sínum, er sagt og sjaldan kemur hv. þm. Ögmundur Jónasson í ræðustól án þess að formæla einkavæðingunni og öðru því sem byrjar á forskeytinu ,,einka``. Ég tel að það sé rétt stefna að flytja völd úr höndum stjórnmálamanna yfir á markaðinn. Ég fór yfir það fáum orðum áðan eins og þingmaðurinn gat um. En ég tel að það skipti líka miklu máli að innleysa það fjármagn sem almenningur á bundið í þessum miklu eignum þegar sú staða er upp komin að hægt er að fá sannvirði fyrir þær eignir með því að setja þær út á markað.

Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason lét þess getið áðan, og það hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson margoft líka sagt, að það sé hrein fásinna að ætla að selja t.d. Símann, vegna þess að hann skili kannski 1--2 milljörðum í arð á ári hverju. Hárrétt. En má ég biðja hv. þm. sem er nú góður í reikningi að velta því örlítið fyrir sér að ef við hefðum selt Símann þegar rétti tíminn og besti tíminn var til þess fyrir örfáum missirum, þá hefðum við hugsanlega fengið 40 milljarða kr. fyrir hann. Hvað skyldi sú upphæð gefa okkur í vexti? Ætli sé ekki óhætt að reikna með um 4 milljörðum á ári sem svona eðlilegri vaxtaupphæð af því samanborið við arðgreiðsluna? Hvað er þá hægt að gera við mismuninn, hv. þm., sem þarna fæst? Til dæmis efla velferðarþjónustuna, leggja meira fjármagn í það sem menn eru að kvarta um að vanti peninga í og annað þess háttar, byggja upp Ísland. (Gripið fram í.) Þannig er þetta hv. þm.

Það er því miklu meira í þessu máli heldur en bara spurningin um að koma völdum úr höndum stjórnmálamanna svo nauðsynlegt sem það getur nú verið, m.a. til þess að koma í veg fyrir að slík völd lendi í höndunum á óábyrgum stjórnmálamönnum, ekki síður þó hitt að losa um það fjármagn sem almenningur á bundið í þessari starfsemi og á fullan rétt á að geta nýtt til annarra þarfa nú þegar aðstæður eru gjörbreyttar.