Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:58:35 (177)

2002-10-04 14:58:35# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller lýsti áhuga sínum á eflingu menntunar og sérstaklega menntunar í heimabyggð, og ég get svo sannarlega tekið undir það með hv. þingmanni.

Það sem kom hins vegar fram hjá hv. þingmanninum í framhaldinu var að hún virðist alls ekki kunna eða vita hver stefna Sjálfstfl. er í menntamálum og hvernig hún hefur verið í reynd.

Sjálfstfl. hefur farið með menntmrn. núna í meira en áratug. Þannig er að framhaldsdeild var í Ólafsvík. Henni var lokað í haust. Framhaldsdeild var á Dalvík fyrir nokkrum árum og skipstjórnarnám. Því var lokað. Verknám úti um allt land og skólar sem reka heimavistir búa við mikil fjárhagsvandræði, og það er niðurskurður á verk- og tækninámi um allt land. Það er hrópað á leiðréttingu en engin leiðrétting fæst.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson viðurkenndi þó hér í ræðu áðan að það þyrfti að búa sig undir stóraukin framlög í menntamálum.