Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:15:59 (186)

2002-10-04 15:15:59# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Það er kannski ekki að ástæðulausu að hv. þm. Sverrir Hermannsson gengur úr salnum þegar ég kem í ræðustól því að eins og þingheimur veit er hv. þm. fyrrv. ráðherra, fyrrv. bankastjóri og fyrrverandi kommissar. En hann talaði eins og hann hefði hvergi komið nærri þjóðmálum. Hann vék máli sínu sérstaklega að fyrrverandi formanni Framsfl., talaði um hann mjög háðslega og vék að því að hann kynni aldeilis að skipta kökunni. Ég er ekkert frá því að hv. þm. Sverrir Hermannsson hafi tekið þátt í því í gegnum tíðina að skipta kökunni. Hv. þm. hefur væntanlega þótt hann skipta henni réttilega á milli manna. En ræðan var afar sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Hann hefur e.t.v. vikið máli sínu að þessum fyrrverandi félaga okkar í þingsal vegna þess að hann hafi ekki haft svo mikið meira um fjárlögin að segja. Þess vegna hafi verið hagstætt að nýta hluta tímans til þess að víkja máli sínu sérstaklega að honum og ýmsum málum sem skipta fjárlögin kannski ekki höfuðmáli, en þau eru einmitt til umræðu í dag.

Það eru einmitt mjög jákvæð teikn á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar og við getum verið mjög glöð yfir því. Umræðan í dag hefur einmitt einkennst af því. Það er alveg sama hvort það eru stjórnarandstæðingar eða stjórnarsinnar sem tala. Menn hafa almennt verið nokkur ánægðir með þau fjárlög sem hér hafa verið lögð fram enda er í þjóðhagsspá gert ráð fyrir aukinni landsframleiðslu. Það er talað um að hagvöxtur komi til með að aukast um 1,5% en á síðasta ári var enginn hagvöxtur. Það sem skiptir okkur líka mjög miklu máli í þessu sambandi er viðskiptahallinn sem er horfinn núna en hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. Menn hafa einmitt óttast hann í hagstjórn þjóðarinnar.

Í fjárlagafrv. og forsendum þess er gert ráð fyrir að þjóðhagslegur sparnaður komi til með að aukast, að lífskjör batni og þar með kaupmáttur fólks og þar er einnig gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um u.þ.b. 2%. Auðvitað getum við glaðst yfir þessum tölum sem lagðar hafa verið fram.

Annað hefur líka einkennt þjóðfélag okkar í gegnum tíðina. Það er ótti okkar við verðbólgu. Sem betur fer hefur tekist að beisla verðbólguna sem stefndi í ákveðið óefni á tímabili. Það hefur vissulega tekist og mönnum hefur líka verið tíðrætt um hverjum það er að þakka. Sumir hafa talað um glópalán í því sambandi. Það er sama hvaða spaugsyrði menn nota um það, við eigum auðvitað að gleðjast yfir því ef hægt er að ná tökum á verðbólgunni og það er full ástæða til að þakka forustuliði ASÍ fyrir ábyrga og trausta forustu í þeim efnum, reyndar í mjög góðri samvinnu við ríkisstjórn Íslands. Það skiptir hinn almenna launamann mjög miklu máli að verðbólga í landinu sé ekki mikil. Hún má ekki vera meiri en gengur og gerist í öðrum löndum. Það þekkjum við frá fornu fari þegar verðbólgudraugurinn óð hér uppi að þá er mjög erfitt að hafa nokkra stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna segi ég að samstarf ríkisstjórnarinnar og ASÍ-manna í þessum efnum var til mikillar fyrirmyndar og mættu fleiri taka það til greina þegar gerðar eru kröfur um aukin laun og annað slíkt. Í þessu sambandi sýndi ASÍ-forustan mikla ábyrgð og traust. Hér er því ekki um neitt glópalán að ræða. Þetta er orð sem menn nota í spaugi. (GE: Það er talað um glópagull.) Hér er um samstillt átak að ræða og skiptir okkur mjög miklu máli.

Ég hef líka oft talað um að hyggilegt væri að lækka skattleysismörk í landinu. Hins vegar hefur hæstv. fjmrh. í dag lagt fram tölur í þeim efnum þar sem hann sýnir fram á að ef við hækkum staðgreiðslumörkin þá þýði það mjög lítinn ávinning fyrir einstaklinga en er mjög kostnaðarsamt í útgjöldum ríkisins. Nefndar hafa verið tölur í þessum efnum. Ef skattleysismörkin eru færð upp um 1.000 kr. þá lækka skattar á hvern einstakling í raun um 380 kr. Það þýðir að kostnaður ríkisins fyrir hverjar 1.000 kr. sem þetta hækkar er um 1 milljarður. Ef við tölum um 5.000 kr. þá eru það 5 milljarðar, 10 þús. kr. verða 10 milljarðar þannig að þær tölur sem lagðar hafa verið fram sýna fram á að þetta er ekki rétta leiðin.

Fjárln. kemur til með að fjalla um þessa bók sem hér er lögð fram, frv. til fjárlaga fyrir árið 2003. Eftir þessar umræður komum við til með að vinna með þær tillögur sem hér eru fram settar. Ég var að tala um þjóðarspána og þess háttar sem lofar góðu en auðvitað er ýmislegt í þessu fjárlagafrv. sem ber að skoða og athuga. Sveitarstjórnarmenn hafa komið á okkar fund á síðustu dögum og farið yfir ýmis mál sem þeir leggja mikla áherslu á að við komum til með að skoða vel og gera tilraun til að leiðrétta. Þar ber fyrst að nefna að dagvistargjöld á dvalarheimilum aldraðra og hjúkrunarheimilum eru of lág þannig að þessar stofnanir eru nú um stundir reknar með miklu tapi. Það er mjög nauðsynlegt að skoða til hlítar hvernig við getum bætt úr því. Í fjárlagafrv. eru ákveðnar tölur og það þarf að reikna út hvort þær dekka það sem við erum að tala um í þessu sambandi.

Á sama hátt hafa löggæslumál verið mjög til umræðu. Vítt og breitt um landið skortir fé til þess að geta rekið þá þjónustu sem á þarf að halda. Ég tek dæmi úr mínu héraði, Rangárvallasýslu. Lagðar voru fram tölur þar sem fram kom að að meðaltali er einn lögreglumaður á hvern 441 íbúa, ef ég man þessa tölu rétt. En t.d. í Rangárvallasýslu eru ekki nema þrír lögregluþjónar á þessu stóra svæði og það þýðir að um einn lögreglumaður er á hvern 1.071 íbúa. Fyrir utan fjölda íbúa á þessu svæði er þar einnig mjög mikil ferðaþjónusta, bæði að vetri og sumri þannig að hér er um tölur að ræða sem nauðsynlegt er að skoða, ekki bara í Rangárvallasýslu eða á Suðurlandi heldur í heild. Þarna eru atriði sem okkur ber að athuga vegna þess að þetta er hluti af því að íbúar ... (ÖJ: ... dæmi.) Þetta er hluti þess að íbúar njóti þess öryggis sem á þarf að halda. Þó að hv. þm. Ögmundur Jónasson kalli hér fram í --- þetta er ekki í fyrsta skiptið og ekki í annað skiptið sem hann gerir það þegar ég stend í ræðustól þrátt fyrir að hann tali oft býsna lengi --- þá veit ég að hv. þm. er sammála mér í því að þarna er um atriði að ræða sem ber að skoða sérstaklega þegar við erum að hugsa um öryggi þegnanna í þjóðfélagi okkar.

Einnig hafa menn velt mjög fyrir sér reiknilíkönum varðandi framhaldsskólana, þ.e. hvort rétt er gefið í þeim efnum. Það er hluti af því sem við komum til með að skoða í fjárln. Alþingis hvort eitthvað er hægt að þoka þessum málum áfram. En þegar við skoðum fjárlagafrv. og forsendur þess getum við verið til þess að gera ánægð með það, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar. Það eru mjög mörg tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar í landinu og þróunar til framtíðar.