Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:25:31 (187)

2002-10-04 15:25:31# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er vissulega rétt að orðið hafa umtalsverðar breytingar á efnahagsumhverfinu nú milli ára frá því sem við ræddum á liðnu hausti fyrir réttu ári síðan þegar ýmsar blikur voru á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er engin ástæða til að draga dul á það að að mörgu leyti hefur náðst betra jafnvægi, sérstaklega hvað varðar þróun verðlags, og viðskiptahallinn sem var búinn að vera gríðarlegur um langt árabil hefur nánast horfið. Það er ekki þar með sagt að ekki sé ýmislegt sem ástæða er til að hafa áhyggjur af í sambandi við okkar ríkisbúskap og fjármál. Svo er vissulega. Það sem í aðalatriðum hefur gerst er að kyrrstöðutímabil hefur tekið við af þeirri þenslu og þeirri eyðslu umfram efni sem staðið hafði um árabil og fór algerlega úr böndunum. Mér finnast talsmenn stjórnarflokkanna hér, hæstv. fjmrh. eða þess vegna hæstv. forsrh. í stefnuræðu sinni, skauta dálítið létt yfir þá staðreynd að eftir standa þær skuldir sem söfnuðust á þessu óráðsíutímabili. Eftir stendur t.d. um 200 milljarða uppsafnaður viðskiptahalli frá þessu fimm til sjö ára tímabili þegar viðskiptin voru öfug við útlönd upp á hvert einasta ár og mjög háar fjárhæðir sum árin. Það dregur um vaxtakostnaðinn af þessum skuldum einum.

Herra forseti. Ég vil líka segja að ég tel afturför fólgna í því að sú þjóðhagsáætlun sem áður lá fyrir á haustin unnin af Þjóðhagsstofnun, ítarlegt plagg með öllum gögnum, er nú ekki til staðar heldur koma tveir sneplar frá fjmrn., annars vegar þjóðhagsáætlun sem er svo rýr í roði að hún fæðir ekki mikið, fóðrar ekki marga, upp á sex eða sjö blaðsíður ... (Gripið fram í: Frá forsrn.) Þjóðhagsáætlun er frá forsrn. og síðan er hefti frá fjmrn., Þjóðarbúskapurinn. Ég hef ekki borið þetta mikið saman en þó nokkuð og það er alveg ljóst að umfjöllun fjmrn. um ýmsa lykilþætti er í miklu meiri símskeytastíl, einfaldari. Það er t.d. ekki getið aðferða við útreikninga með sama hætti og Þjóðhagsstofnun gerði. Tökum eitt lítið dæmi, erlendar skuldir þjóðarbúsins. Í þjóðhagsáætlun í fyrra er gerð ítarleg grein fyrir þeim í sérstökum kafla, birtar töflur með útreikningum og sagt hvernig komist er að niðurstöðu, útskýrt t.d. hvernig gengisviðmiðun er notuð þegar hinar hreinu erlendu skuldir eru bornar saman milli tímabila. Slíkar upplýsingar vantar í heftið frá fjmrn. og þetta leyfi ég mér að gagnrýna, herra forseti. Ég er ekki að segja að þær geti ekki verið réttar sem slíkar en það vantar útskýringar við þær og þær mættu gjarnan vera ítarlegri. Ég sé því ekki að það hafi ræst eða gengið eftir að ekkert munaði um það að slá eitt stykki Þjóðhagsstofnun af og tvístra verkefnum hennar út um dal og hól eins og gert var. Ég held að það hafi verið afturför.

Það sem ég vil í öðru lagi nefna, herra forseti, er að ríkisbúskapurinn, sléttur og felldur á yfirborðinu eins og hann er samkvæmt þessu frv., er þó þannig að ef eignasalan er tekin frá, bæði sú sem nú er fyrirhuguð og eignasalan undanfarin ár, þá er þetta ekki nema svona rétt í járnum. Það geta menn sagt að sé ekkert slæmur árangur hjá einu stykki ríki og ríkissjóði. En þá verðum við að hafa í huga hvernig öðrum aðilum í samfélaginu vegnar á sama tíma. Það er takmörkuð huggun að ríkissjóður greiði niður skuldir sínar ef aðrar máttarstoðir samfélagsins, heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin safna skuldum en þannig hefur staðan verið og er enn, því miður. Heimilin eru enn að auka skuldir sínar. Það er ljóst. Þar er staðan hrikaleg, hversu hratt hefur dregið saman með eignum og skuldum heimilanna. Það var þannig fyrir einum sex, sjö árum að þá voru skuldir heimilanna um helmingur á móti eignum, kannski 400 milljarðar á móti 800 milljarða eignum. Á því tímabili sem síðan er liðið hafa eignirnar aukist óverulega en skuldirnar næstum tvöfaldast þannig að þær eru nú rétt undir eignunum. Ef við lítum á ráðstöfunartekjurnar, sem eru önnur algeng viðmiðun, þá er staðan þannig að skuldir heimilanna eru óðum að nálgast tveggja ára ráðstöfunartekjur. Á mannamáli þýðir það að þó að heimilin eyddu engri einustu krónu og notuðu allt í að borga skuldir þá tæki það næstum tvö ár að borga þær skuldir. Varla lifa menn á loftinu á meðan. (Gripið fram í: Þær eru að minnka.) Þær eru ekki að minnka. Skuldirnar eru ekki að minnka. Það dregur úr skuldaaukningunni, en hún er enn til staðar. Það er enn að bætast við skuldirnar. Þær gera því miður ekki einu sinni að standa í stað.

[15:30]

Síðan náttúrlega, herra forseti, hvernig skattbyrðunum er dreift í landinu. Það er alveg svakalegt að fara yfir það í fjárlagafrv. hvernig tilfærslan hefur orðið þar. Er engum brugðið sem fer t.d. yfir töflurnar í greinargerð fjárlagafrv. og sér hvernig skattbyrðin hefur verið flutt svo nemur tugum milljarða króna yfir á almenna launamenn og af öðrum aðilum? Nánast öll þyngdin liggur orðið þar. Og til að kóróna sköpunarverkið lækka menn sérstaklega þetta óverulega álag á háar tekjur sem hér hefur verið við lýði í nokkur ár. Þar hefur ríkisstjórnin valið sér sérstakan markhóp til þess að færa í jólagjöf skattalækkun, þ.e. hátekjufólkið í landinu. Ekki lágtekjufólkið, ekki þá sem munar mest t.d. um skattleysismörkin eða skerðingarviðmiðanir í almannatryggingakerfinu, nei, heldur hátekjufólkið.

Herra forseti. Að lokum örfá orð um málaflokka sem mér sýnast vera býsna illa settir í þessu fjárlagafrv. Ég hef ekki tíma til að fara yfir margt, en ég ætla að nefna tvennt. Ég ætla að nefna byggðamál almennt og framlög til þeirra hluta og það ófremdarástand t.d. sem ríkir í málefnum atvinnuþróunarfélaganna. Hvað á það eiginlega að þýða að þessir veiku sprotar sem eru þó tilraunir til þess á sjálfstæðum forsendum að sinna atvinnuþróun úti um landið, að það skuli flatreka ár eftir ár, hanga á horriminni og án samninga? En þannig er það og hefur verið um langt árabil þannig að neyðaróp berast frá forsvarsmönnum atvinnuþróunarfélaganna þessa dagana vegna stöðu sinna mála þar sem menn sjá ekki fram á að þeir geti hreyft hönd eða fót sökum fjárskorts og hafa ekki einu sinni tryggingu fyrir því litla sem þeir hafa haft vegna þess að þar eru engir samningar í gildi um rekstrargrundvöll atvinnuþróunarfélaganna. Þetta er náttúrlega svo yfirgengilegt sleifarlag að það hálfa væri nóg og til háborinnar skammar fyrir þá sem þarna bera ábyrgð, herra forseti.

Ég vil í öðru lagi nefna lið sem er kannski ekki óskaplega stór í fjárlagafrv., en þó þannig að við hann hafa verið bundnar af ákveðnum aðilum alveg gríðarlega miklar vonir og það er liðurinn nytjaskógrækt eða bændaskógrækt. Eitt af því fyrsta sem ég fletti upp á bæði í fjáraukalagafrv. sem hér liggur og nú í fjárlagafrv. var þessi liður og væri fróðlegt að vita hvort hæstv. landbrh. hefur vaknað til þessarar umræðu, það er kannski of árla dags enn þá fyrir hann að koma hingað með skemmtisögur sínar. En það væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. landbrh. ætlar að forsvara þá útreið ... (Gripið fram í.) Já, það er nú slæmt, en vonandi verður hægt að eiga skoðanaskipti við ráðherrann síðar um þessi mál. Það er náttúrlega mjög slæmt að fagráðherrar séu almennt í burtu við 1. umr. fjárlaga þannig að ekki sé hægt að leggja fyrir þá spurningar um málaflokka þeirra. (Gripið fram í: Þeim kemur þetta ekkert við.) Einhvern tímann var sagt að þeir ættu að hafa alveg sérstaka mætingarskyldu hér þannig að umræðan gæti farið fram á þeim forsendum.

Það er þannig, herra forseti, að ekki verður einu sinni hægt að standa við þegar gerða samninga við bændur um nytjaskógrækt, sem sjálfur landbrh. hefur undirritað, ef ekki fæst meiri hækkun á heldur en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Norðurlandsskógar t.d. eiga að fá 10 millj. kr. hækkun, fara úr 50 milljónum í 60, fá 6 millj. kr. hækkun samkvæmt fjáraukalagafrv., en áætlun gerði ráð fyrir 80 milljónum í fyrra og 130 milljónum á þessu ári. Samkvæmt því hafa starfsmenn unnið að undirbúningi þessara verkefna. Samkvæmt því hafa verið gerðir samningar við bændur. Samkvæmt því hafa jarðir verið kortlagðar og þær settar á biðlista eftir því að koma inn í verkefnin. Nú er staðan sú að ef þetta gengur svona eftir verður ekki hægt að taka í það eina einustu nýja jörð. Það kemur jafnvel til hreinna vanefnda á samningum sem landbrh. sjálfur hefur undirritað. Er þetta hægt? Nei, auðvitað ekki. Það er búið að selja mönnum þetta út um sveitir landsins sem alveg sérstakt byggðaverkefni, eitt af því fáa sem menn hafa haft til að reyna að hrósa sér af, að vegna t.d. tekjusamdráttar í sauðfjárrækt og víðar, þá séu þó þarna einhverjir möguleikar á móti og þá er frammistaðan svona. Það er langur vegur frá því að hægt sé að standa við þær áætlanir og þá samninga sem þarna hafa verið lagðir til grundvallar. Þetta er til vansa, herra forseti.