Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:40:31 (192)

2002-10-04 15:40:31# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst fara fram á það við hv. þm. að hann hafi hemil á gagnrýni sinni og gæti þess að vera sæmilega sanngjarn í henni. Það er ekki sanngjarnt eða eðlilegt af hálfu þingmanns að gagnrýna ráðherra fyrir fjarveru þegar hann hefur lögmætar fjarvistir. Mér finnst að hv. þingmenn geri lítið úr sjálfum sér með því að nýta svona tækifæri til þess að koma höggi á hæstv. landbrh.

Varðandi skógræktarverkefnin er auðvitað hægt að segja að betur megi gera og félögin kunna að hafa gert áætlanir nokkur ár fram í tímann, en þær áætlanir fá ekki framgang nema þær nái fram að ganga hjá ríkisstjórninni. Þó að stjórnir skógræktarfélaganna eða þeirra sem að því standa semji sín plön, þá er ekki þar með sagt að menn geti treyst því að það nái fram að ganga. Það þarf auðvitað eins og allt annað að fara í gegnum vinnu við gerð fjárlagafrv. og gegnum ríkisstjórn.

Framlögin hafa hækkað mjög mikið á síðustu árum. Frá árinu 1997 hafa þau hækkað um 38% á ári að meðaltali. Þau hafa hækkað úr um 50 millj. kr. upp í 350 millj. kr., eða sjöfaldast á fimm árum. Ég hygg að hv. þm. finni ekki önnur dæmi um meiri hækkun í nokkru máli í fjárlagafrv. á síðustu fimm árum.

Nokkur orð má hafa um uppsetningu hv. þm. um hvernig best er hægt að koma tekjulágum til hjálpar, en ég er ekki viss um að besta leiðin sé að hækka almennt skattleysismörk. Ég held að menn átti sig fljótt á því að til þess þurfi allt of mikla peninga og þeir dreifist mun víðar en ætlast er til.