Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:42:40 (193)

2002-10-04 15:42:40# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna að ég hafi á nokkurn hátt haft óviðeigandi ummæli hér um fjarveru hæstv. landbrh. Ég var upplýstur um það í frammíkalli að ráðherra hefði fjarvistarleyfi og þá sagði ég að það væri óheppilegt að fagráðherrar væru ekki viðstaddir fjárlagaumræðuna. Um það hefði oft verið rætt að þeir þyrftu að vera hér þannig að hægt væri að leggja spurningar fyrir þá strax við 1. umr. fjárlaga um mál á þeirra sviði. Er eitthvað að því að taka svona til orða? Er það einhver atlaga að eða árás á landbrh.? Hann þolir þá ekki mikið, sá hæstv. ráðherra, ef ekki má ræða um að það sé almennt óheppilegt að ráðherrar séu fjarstaddir umræður um fjárlagafrv. sem og auðvitað almennt þingstörf því þeir hafa auðvitað þingskyldum hér að gegna eins og aðrir.

Varðandi skógræktina þá er það bara ekki þannig, eins og hv. þm. lét liggja að, að þetta séu einhverjir óskalistar stjórna skógræktarverkefnanna án nokkurs samráðs við stjórnvöld. Þetta er allt saman unnið í samræmi við þau lög sem sett hafa verið um héraðsbundna eða landshlutabundna skógrækt og í samráði við stjórnvöld. Hvers vegna er mikilvægt að slíkar áætlanir haldi? Jú, fyrir nú utan bara almenna tiltrú á svona verkefni þá er það sérstaklega mikilvægt vegna þess að þetta er grundvallað á langtímasamningum við bændur og við plöntuframleiðendur. Það er nefnilega þannig að það þarf að undirbúa með nokkrum fyrirvara að menn hafi tré, plöntur á vorin til þess að setja niður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Þær verða bara ekki til daginn áður en á að labba með þær út í haga og stinga þeim niður. Það þarf að sá og það þarf að spíra og það þarf að koma upp og það þarf að vökva þetta allt saman og næra. Um þetta gera félögin samninga sem og við bændurna og til þess að hægt sé að vinna eðlilega að þessu og í eðlilegum takti þá verða menn að leggja til grundvallar einhverja fjárhagsáætlun til nokkurra ára og hún þarf að halda. Það er þá miklu betra að hún sé bara raunsæ frá byrjun og sagt: Ja, það er bara ekki pólitískur vilji til að leggja í þetta meira fé en þetta. Þá vita menn það. En að skapa væntingar, lofa öllu fögru, fara um landið og slá sér á brjóst yfir þessum stórkostlegu átökum sem eigi að gera og standa svo ekki við það, það er ekki farsælt.