Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:47:12 (195)

2002-10-04 15:47:12# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef glóðvolgar upplýsingar í höndunum frá fleiri en einu og fleiri en tveimur atvinnuþróunarfélögum. Þar bera menn sig mjög illa undan þessari stöðu og líta svo á að þeir séu án samninga og hafi verið í eitt og hálft ár. Þeir telja að þeir hafi alls ekki fengið fullnægjandi fjárveitingar til að það haldi í við hækkandi verðlag og þann kostnað af störfum þeirra. Þetta hefur leitt til þess að hlutur heimamanna hefur farið heldur hækkandi sem hlutfall af þessum kostnaði. Sums staðar hafa þau framlög hækkað verulega á hvern íbúa vegna þess að íbúum hefur jafnvel fækkað á viðkomandi svæðum á sama tíma. Menn segja sínar farir ekki sléttar af þessum samskiptum og sjá ekki, þegar þeir blaða núna í fjárlagafrv., að það standi til að gera betur í þessum efnum.

Ég hlýt að velta því upp og hvetja til að það verði skoðað hvort að þarna sé ekki of naumt skammtað. Ég held að þessi starfsemi sé þrátt fyrir allt ákaflega mikilvægt. Þetta er oft á tíðum eini vísirinn að því að heimamenn sjálfir, að eigin frumkvæði, hrindi einhverjum framfaramálum í framkvæmd, oft fyrir mjög litlar fjárhæðir. Þarna munar um hverja krónu. Það er ekki óalgengt að þessi atvinnuþróunarfélög styrki verkefni og stuðli að hlutum fyrir fjárhæðir sem mælast jafnvel frekar í hundruðum þúsunda heldur en milljónum. Það munar því um hverja krónu í þessu sambandi. Ég held að það hljóti að vera einhverjir möguleikar á að standa þarna betur að verki.