Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:49:16 (196)

2002-10-04 15:49:16# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur fylgt úr hlaði fjárlögum fyrir árið 2003. Fyrir tveimur dögum vorum við á hinu háa Alþingi að ræða um stefnuræðu forsrh. Þar var miklum tíma eytt í að ræða um hinn mikla bata sem menn telja sig sjá í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir þær miklu kollsteypur sem þau hafa þó tekið síðustu eitt til tvö ár. Í raun var það dálítið einkennilegt hve miklum tíma hæstv. forsrh. eyddi í stefnuræðu sinni í gagnrýni á störf og spár Þjóðhagsstofnunar og forstjóra hennar á liðnum árum. Þetta virtist þannig ekki beint stefnuræða heldur fortíðarræða og í raun rökstuðningur fyrir því að Þjóðhagsstofnun skyldi hafa verið lögð niður.

Því vaknar sú spurning, nú þegar þessi málaflokkur hefur verið færður í fjmrn. til sérstakrar deildar þar sem á að spá um efnahagsmál landsins, hvað í raun og veru eigi að fá okkur og almenning til að trúa að spár um viðskiptahalla verði öruggari nú en áður. Viðskiptahalli undanfarinna ára hefur verið mikill og leiddi af sér að ýmislegt annað gerðist í þjóðfélaginu. Ég held að þessar spár muni ekki fremur ganga eftir vegna þess að hin illgjarna Þjóðhagsstofnun hafi verið lögð niður.

En það má líka spyrja sig að því, herra forseti, hvers vegna þessar spár gengu ekki eftir. Það var m.a. vegna þess að krónan féll með undraverðum hraða á mjög stuttum tíma, þ.e. allt að 30% gengisfelling á síðasta ári. Við lifðum við að bandarískur dollar kostaði 111 kr. sem kom í framhaldi af ákvörðunum um afnám fastgengisstefnu Seðlabankans. Vegna þessara miklu gengisfellingar kom það af sjálfu sér að menn héldu að sér höndum og innflutningur dróst saman. Það var auðvitað líka þess vegna sem útflutningstekjur jukust. Þetta gæti einmitt verið skýringin á því hvers vegna jöfnuður varð á viðskiptum við útlönd. Þetta ástand er líka ein skýringin á því hvers vegna verðbólga tók skyndilega stökk eftir rólegheit undanfarinna ára.

Hæstv. fjmrh. sagði í inngangi að ræðu sinni áðan að skuldsetning fyrirtækja og einstaklinga væri að minnka eða hefði verið stöðvuð. Vonandi er það rétt. Hins vegar er rétt að hafa það í huga að skuldsetning fyrirtækja og einstaklinga í landinu er hrikaleg og sennilega þekkist ekki annað eins, eins og hér hefur komið fram varðandi skuldir einstaklinga.

Það er sannarlega líka rétt að vextir hafa verið að lækka, enda máttu þeir það. Okurvöxtum hefur verið haldið uppi í landinu til að draga úr þenslu, eins og áður hefur komið fram, þenslu sem þekktist ekki nema á höfuðborgarsvæðinu. Varðandi það að verðbólgan sé að minnka þá er það gott ef svo er en við skulum líka hafa í huga að það var ekki eingöngu baráttu ríkisstjórnarinnar að þakka. Ég hygg að barátta ríkisstjórnarinnar vegi nú frekar létt í þessu. Mér finnst a.m.k. rétt að halda því til haga að verkalýðsforustan í landinu dró vagninn í þessu sambandi. Það var forusta Alþýðusambands Íslands sem lagði af stað í mikla baráttu til að hemja verðbólgu og draga úr verðhækkunum. Það var verkalýðshreyfingunni og ASÍ sem tókst það, með stuðningi forustumanna nokkurra öflugra fyrirtækja sem komu inn í málið á síðustu stundu, að stuðla að því að rauða strikið svokallaða hélt.

Það má eiginlega segja að verkalýðshreyfingin hafi komið til bjargar ríkisstjórninni á síðustu stundu. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga hvers verkalýðshreyfingin var megnug í svokölluðum þjóðarsáttarsamningum.

Það kemur upp í hugann, þegar hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hæla sér af þessum mikla viðsnúningi frá því er allt var nánast að fara á annan endann, máltækið: Margur elur dramb sitt á annarra svita. Ég held að það eigi vel við um ríkisstjórn sem ekki gerir mikið að því að tala um þátt verkalýðshreyfingarinnar í þessum mikla viðsnúningi sem náðist. Verkalýðshreyfingin á Íslandi og hennar félagar eiga sannarlega þakkir skildar fyrir það sem áunnist hefur.

Á tíu mínútum gefst ekki tími til, herra forseti, að fara mikið í gegnum málið og gefst ekki færi á að kafa djúpt í einstaka þætti fjárlaganna. Þannig verður að nægja að tipla á því helsta sem athygli vekur.

Það liggur fyrir nú að tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 7,5 milljörðum kr. á þessu ári í 5,3 milljarða kr. Þetta kemur í framhaldi af því að ríkisstjórnin ákvað að lækka tekjuskattsprósentu fyrirtækja úr 30% í 18%. Hins vegar fylgir sá böggull skammrifi að ríkisstjórnin ákvað að hækka tryggingagjaldið um leið. Áætlað er að tryggingagjaldið gefi á næsta ári 3,8 milljörðum meira en á þessu ári.

Þetta eru skattkerfisbreytingar, herra forseti, sem verða fáum stórfyrirtækjum til mikilla bóta, hér á höfuðborgarsvæðinu. Breytingarnar íþyngja hins vegar mjög fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, hvort sem þau er á landsbyggðinni eða hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi tryggingagjaldshækkun hefur töluverð áhrif á rekstur ungra sprotafyrirtækja í þekkingariðnaði og á öðrum sviðum vegna þess að þau njóta ekki ávaxtanna af þessari skattkerfisbreytingu, þ.e. af lækkun tekjuskatts og eignarskatts. Ég vildi halda þessu til haga hér, herra forseti, og segja enn einu sinni: Þessi skattkerfisbreyting mismunaði mjög fyrirtækjarekstri á landinu eftir því hvar hann var staðsettur.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með því hvernig eignarskatturinn --- áætlað er að hann lækki um 4,4 milljarða á næsta ári, verði einungis 6,9 milljarðar --- skiptist milli kjördæma í landinu. Ég hef ákveðnar grunsemdir um hvernig það verður. Ég er búinn að leggja fram fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh. til að fá sundurliðun á því hvernig það skiptist og vonandi kemur svar á næstu dögum.

Á sama tíma og tekjuskattur fyrirtækja er að lækka um þessa 2,2 milljarða kr. er tekjuskattur einstaklinga að hækka um 5 milljarða kr. milli ára eins og fram kemur í frv. Tekjuskattur einstaklinga á að skila 70 milljörðum kr. í stað 65 milljarða á þessu ári.

Margt fleira mætti segja um þetta fjárlagafrv. sem hér er lagt fram með 10,7 milljarða tekjuafgangi, þar af er gert ráð fyrir 8,5 milljörðum vegna eignasölu. Auðvitað má segja sem svo að tekjuafgangur ríkissjóðs sé ekki mjög mikill. Menn gætu hugsað til þess þegar ráðherrar og aðrir skamma sveitarfélögin fyrir þeirra rekstur þar sem lítið er til skiptanna. Ég ætla ekki að úttala mig um hvort útgjöldin eru of mikil eða tekjurnar of lágar en ég set þetta fram til þess að menn hugleiði þetta mál. Eins verður að hafa í huga að áætluð launaútgjöld á árinu eru um 65% af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, þ.e. rúmir 72 milljarðar kr. Þetta eru stórar tölur, herra forseti.

Í lokin langar mig rétt að minnast á óbeina skatta, virðisaukaskattinn sem á að skila 80 milljörðum kr. á næsta ári. Þetta eru háar tölur og við höfum áður rætt um hvernig virðisaukaskattur leggst misjafnlega á landsmenn. Ég held því fram að virðisaukaskattur sé mjög ósanngjarn skattur, m.a. gagnvart flutningskostnaði og gagnvart vöruverði eins og ég hef hér áður rakið úr ræðustóli Alþingis, að því leyti að hann kemur illa við landsbyggðarfólk. Ég spyr hvort ekki sé ástæða til að skoða hluta af virðisaukatekjum ríkissjóðs og segja með sanni að taka megi töluvert af þeim tekjum og nota til að jafna skattbyrði, þ.e. jafna lífskjör í landinu milli landsbyggðarbúa og höfuðborgarbúa. Við skulum bara hafa í huga hvað flutningskostnaður á vöru, t.d. austur á land, gefur í virðisaukatekjur fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Rétt í lokin vil ég segja að ég hef það á tilfinningunni að margt í þessum fjárlögum sé vanreiknað. Mér finnst að hér hafi menn ýtt ýmsu á undan sér og hef á tilfinningunni að ýmislegt í útgjöldum muni ekki standast og margar stofnanir séu sveltar. Mér sýnast þessi fjárlög benda til að menn ýti vandanum á undan sér nú á kosningaþingi. Þetta eru síðustu fjárlög fyrir kosningar. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar að takast á við ýmislegt sem vanreiknað er í þessu fjárlagafrv.