Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:59:36 (197)

2002-10-04 15:59:36# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur orðið gífurleg breyting til hins betra á stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum. Í stað viðvarandi halla upp á milljarða og milljarðatugi eru fjárlög nú afgreidd með miklum tekjuafgangi ár eftir ár. Þetta frv. gerir ráð fyrir 11 milljarða afgangi á ríkissjóði án óreglulegra gjalda, svo sem lífeyrisskuldbindinga og söluhagnaðar af eignum. Þá er lánsfjárafgangur áætlaður 10 milljarðar, sem þýðir að uppsafnaður lánsfjárafgangur frá 1998 er 67 milljarðar kr.

Vegna bættrar skuldastöðu ríkissjóðs hafa vaxtagjöld ríkisins umfram vaxtatekjur lækkað um 4,5 milljarða kr. eða um tæp 60% á þessu tímabili sem er auðvitað stórkostlegur árangur. Þessum 4,5 milljörðum er auðvitað betur varið til ýmissa þjóðþrifamála en vaxtagreiðslna.

[16:00]

Talandi um vexti verður að minnast á þá staðreynd að þau erlendu fyrirtæki sem meta lánshæfi einstakra ríkja setja Ísland í hóp með traustustu ríkjum heims sem er auðvitað mikil viðurkenning á góðri hagstjórn og færir okkur bestu kjör á erlendum lánum ríkissjóðs.

Afgangur úr ríkissjóði á undanförnum árum hefur gengið til þess að greiða niður skuldir og lækka skuldbindingar. Frá árinu 1996 hafa hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað úr 34,5% af landsframleiðslu í 19% samkvæmt áætlun fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Auk þessara miklu niðurgreiðslna skulda er áætlað að uppreiknaðar innborganir ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nemi um 53 milljörðum kr. á tímabilinu 1999--2003. Með þeirri ráðstöfun er komið í veg fyrir stórfelld framtíðarútgjöld. Þetta er auðvitað stórkostlegur árangur sem ástæða er til að gleðjast yfir.

Frv. gerir ráð fyrir að skatttekjur á árinu 2003 verði óbreyttar að raungildi sem er athyglisvert þar sem verið er að lækka skatta verulega, t.d. tekjuskatt lögaðila úr 30% í 18% og eignarskatta um meira en helming sem er sérstaklega ánægjulegt. Eignarskatturinn er að mínu áliti allra skatta óréttlátastur því að eignir manna verða jú yfirleitt til vegna tekna sem þegar hefur verið greiddur skattur af. Þá verður sérstakur tekjuskattur lækkaður úr 7% í 5%, skattafsláttur maka verður að fullu millifæranlegur og skattur á húsaleigubótum er aflagður. Þetta eru verulegar skattalækkanir sem koma einstaklingum og fyrirtækjum til góða.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 3,6% það sem af er þessu ári og talið er að hann muni aukast um 2% á næsta ári. Gangi sú spá eftir verður það níunda árið í röð sem kaupmáttur launa eykst, sem er einsdæmi. Fáar og jafnvel engar þjóðir geta státað af slíkri kaupmáttaraukningu níu ár í röð.

Ráðstöfunartekjur, þ.e. heildartekjur einstaklinga að meðtöldum bótum en að frátöldum beinum sköttum, hækkuðu um rúm 9% í fyrra, 6,25% í ár og gert er ráð fyrir að þær muni hækka um 4,25% á næsta ári. Þessi mikla aukning ráðstöfunartekna sýnir auðvitað að stjórnarstefnan er hagfelld fyrir fólkið í landinu.

Stjórnarandstaðan heldur því gjarnan fram að þeir sem erfiðast eiga njóti ekki góðærisins. Því miður er það svo að alltaf eiga einhverjir erfitt í þjóðfélaginu en það verður þó að minna á að við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslegar bætur sem tóku gildi 1. júlí 2001 var lögð sérstök áhersla á að bæta hag þeirra bótaþega sem höfðu lægstar bætur. Breytingarnar fólust fyrst og fremst í því að draga úr skerðingu bóta vegna annarra tekna og hækka sérstaka heimilisuppbót sem nú nefnist tekjutryggingarauki og rýmka skilyrðin fyrir honum. Áhrif þessara lagabreytinga eru nú komin fram af fullum þunga og hafa bætur almannatrygginga hækkað á árinu í kjölfarið. Sem fyrr gildir sú regla að greiðslur almannatrygginga skulu breytast í samræmi við launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Bætur almannatrygginga hækkuðu í samræmi við þetta um 8,5% í janúar sl.

Þá hefur ríkisstjórnin skipað nefnd til viðræðna við Samtök eldri borgara og gert er ráð fyrir niðurstöðu úr þeim viðræðum í nóvember. Vonandi tekst þar samkomulag sem hægt verður þá að taka tillit til við lokaafgreiðslu fjárlaga í desember.

Verðbólga hefur lækkað hratt á þessu ári og hefur vísitala neysluverðs eingöngu hækkað um 0,6% það sem af er árinu og gert er ráð fyrir að hækkunin innan ársins verði um 1,5%. Á næsta ári er gert ráð fyrir um 2,25% verðbólgu jafnt innan ársins. Við höfum því náð fullkomnum tökum á verðbólgunni eftir þá dýfu sem við lentum í á síðasta ári. Hér ríkir sá stöðugleiki sem skiptir meginmáli í efnahagsmálum.

Viðskiptahalli undanfarinna ára hefur leitt til vaxandi skuldsetningar í útlöndum. Þar er fyrst og fremst um að ræða skuldsetningar heimila og fyrirtækja þar sem skuldir opinberra aðila hafa minnkað. Sá viðsnúningur sem nú hefur orðið í utanríkisviðskiptum skilar sér í lækkun erlendra skulda en samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins lækki úr 103% af landsframleiðslu í 97% á þessu ári og 95% á næsta ári.

Það er athyglisvert að lesa um stóraukinn útflutning iðnaðarvöru í haustskýrslu fjmrn. um þjóðarbúskapinn. Þar kemur fram að lyf voru flutt út fyrir 3,5 milljarða fyrstu sjö mánuði þessa árs sem er svipað og allt árið í fyrra. Útflutningur lyfja er 3% af verðmæti alls vöruútflutnings þessa mánuði. Þarna hefur orðið gríðarlegur vöxtur, þessi útflutningur nam innan við 2 milljörðum árið 2000, 3,5 milljörðum í fyrra en verður trúlega allt að 6 milljarðar í ár.

Þá er gert ráð fyrir að útflutningur annarrar iðnaðarvöru aukist um 28% á þessu ári. Það er ánægjulegt að nefna í því sambandi að nú eru Íslendingar farnir að smíða skip til útflutnings og slá þar tvær flugur í einu höggi, endurreisa skipaiðnaðinn og framleiða skip til útflutnings sem áður var óþekkt.

Gert er ráð fyrir 7% aukningu álframleiðslu á þessu ári og 2% aukningu á næsta ári. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmdum en þegar hafa verið ákveðnar. Auðvitað er ekki rétt að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum fyrr en þær hafa endanlega verið ákveðnar en allt bendir til að þar geti orðið um miklar framkvæmdir að ræða, annars vegar við Norðlingaölduveitu og stækkun Norðuráls og hins vegar við Kárahnjúkavirkjun. Vonandi verður af þessum framkvæmdum. Við þurfum á þeim að halda, bæði hvað varðar störf fyrir einstaklinga og verktaka, og eins þeim stóraukna útflutningi sem leiða mun af stækkun Norðuráls og álveri í Reyðarfirði.

Atvinnuleysi hefur aukist lítillega á þessu ári og talið að það verði að meðaltali 2,5% af mannafla í ár. Atvinnuleysinu er misskipt milli landsvæða, það hefur minnkað stöðugt á landsbyggðinni það sem af er þessu ári en verið nokkuð stöðugt á höfuðborgarsvæðinu og umtalsvert meira en á landsbyggðinni. Raunar er vart hægt að tala um skort á atvinnu þegar sækja þarf mörg þúsund manns frá útlöndum til að sinna þeim störfum sem í boði eru.

Það er ánægjulegt að hagur atvinnuveganna hefur í flestum tilfellum batnað verulega á þessu ári, ekki síst sjávarútvegsins. Fyrstu sex mánuði ársins var hagnaður fyrir skatta hjá öllum fyrirtækjunum, og sem hlutfall af tekjum var hann 33%. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að þessi undirstöðuatvinnuvegur okkar gangi vel og sé rekinn með hagnaði. Eins og fram kemur í haustskýrslu um þjóðarbúskapinn hefur afkoma í flestum öðrum greinum atvinnulífsins stórbatnað, t.d. er heildarhagnaður iðnfyrirtækja á fyrstu sex mánuðum ársins 5,6 milljarðar samanborið við 1,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Það er ánægjulegt og ber vott um það góða ástand sem ríkir í efnahags- og atvinnumálum að saman fer góð afkoma atvinnuveganna og meira jafnvægi í ríkisfjármálum en verið hefur um langt árabil. Það er því full ástæða til bjartsýni og í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir nýju hagvaxtarskeiði.

Herra forseti. Ég hef hér rætt um megindrætti þessa fjárlagafrv. en ekki einstaka liði fjárveitinga. Ég vil þó aðeins nefna framlög til Byggðastofnunar vegna þess að fyrr í umræðunni var þess getið að framlög til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni féllu að mestu niður. Það er misskilningur, framlög til atvinnuþróunarfélaga eru áætluð milli 101 og 102 millj. kr. Hins vegar er getið um það í umfjöllun um Byggðastofnun að framlög til eignarhaldsfélaga falli niður. Þau framlög voru ákveðin í byggðaáætlun 1998 og skyldu þau vera 300 millj. á ári í fjögur ár. Og það gekk eftir nema í fjárlögum 2002 var þessi upphæð lækkuð í 200 millj. Í fjáraukalögum sem dreift var í þinginu í gær er hins vegar lagt til að þessi upphæð verði tekin af Byggðastofnun og færð til verkefna við byggðaáætlun. Forsendan fyrir þeirri tillögu mun hafa verið sú að þetta eignarhaldsfélagafé hefur ekki gengið út þar sem mótframlög heimaaðila, 60% á móti 40% framlagi Byggðastofnunar, hafa ekki náðst í sumum landshlutum. Nú bregður hins vegar svo við að mikil ásókn er í þetta fé og aðilar í tveimur eða þremur landshlutum eru tilbúnir að koma með mótframlag fái þeir samþykki Byggðastofnunar. Ég held að það sé því misráðið að taka þessar 200 millj. til annarra nota en það verður væntanlega rætt nánar þegar fjáraukalög koma til umræðu í þinginu.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég ætla ekki að hafa hér fleiri orð um fjárlagafrv. að sinni en ítreka að hér er gott frv. á ferðinni.