Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:26:40 (202)

2002-10-04 16:26:40# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að við verðum að bíða nokkuð eftir svörum við þeim spurningum sem ég varpaði fram til hæstv. ráðherra. En mig langar til að minna á að það eru fleiri en aldraðir sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda. Það er t.d. hópur af mikið fötluðum yngri einstaklingum sem vantar hjúkrunarheimili þannig að ég hefði viljað halda því einnig til haga í vinnu ráðherrans fram að 2. umr. fjárlaga þannig að mönnum gefist tóm til að leysa vanda þeirra í þeirri vinnu, sérstaklega í ljósi þess að ár fatlaðra er á næsta leiti.

Ég vil einnig, herra forseti, aðeins hnykkja á þessu með bifreiðastyrki fatlaðra sem verið er að auka réttinn á, sem er ágætt, en aðeins er verið að setja í það 6 milljónir til viðbótar sem er ætlað til þeirra sem eru fatlaðir og þurfa á bifreið að halda. Það er ekkert annað en tóm sýndarmennska að ætla þeim stóra hópi sem þarna kemur til viðbótar, þ.e. 70--75 ára, sem öðlast þarna rétt á því að fá bifreiðastyrkina, ekki stærri fjárhæð í það. Og það tel ég að hæstv. ráðherra þyrfti aðeins að íhuga og skoða betur því að það er alveg ljóst að þetta mun ekki anna þeirri eftirspurn sem er eftir bifreiðastyrkjum fyrir þennan hóp.