Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:35:58 (204)

2002-10-04 16:35:58# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LMR
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að einskorða mig við heilbrigðismál. Heildargjöld til heilbrigðis- og tryggingamála eru áætluð um 100,2 milljarðar kr. á árinu 2003, sem eru 12,7% af landsframleiðslu. Á árinu 1992 var sama hlutfall tæp 9% en á undanförnum árum hefur þó landsframleiðsla vaxið verulega.

Vegna framfara hefur hlutfall heilbrigðisþjónustu af vergri landsframleiðslu alls staðar í heiminum farið vaxandi á undanförnum árum og er því ekki einangrað fyrirbæri. Með tækninýjungum, auknum fjölda aldraðra og áherslu á góða þjónustu, allt frá getnaði til grafar, munu útgjöld til þessa málaflokks aukast gríðarlega ef ekki verður gripið í taumana og aðhald aukið. Þrátt fyrir aðhald er ljóst að ekki verður unnt að stöðva algerlega aukningu útgjalda heldur hægja á þeirri þróun. Þetta er vel þekkt alþjóðlegt vandamál. Í nágrannalöndum okkar er nú alls staðar leitað leiða til lausnar.

Sameining stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur undanfarinn áratug verið á dagskrá stjórnarflokkanna. Þótt slík aðgerð hafi marga kosti í för með sér fylgja henni einnig ýmsir vankantar. Helsta ókost sameiningarinnar tel ég hafa verið að fyrir sameininguna var hvorki komin greining á kostnaðarþáttum hennar né nein mæling að ráði á framleiðni sjúkrahúsanna. Í því sambandi hef ég ótal sinnum rætt um hið svokallað DRG-kerfi og hjúkrunarþyngdarkerfi, þ.e. RAI-matið og fleira. Með mælingum á framleiðni á ég ekki eingöngu við fjölda innritaðra og útskrifaðra sjúklinga og göngudeildarþjónustu, heldur er nauðsynlegt að taka tillit til samsetningar sjúkdóma og almennrar þjónustu sjúkrahúsanna.

Ekki voru til nægar upplýsingar fyrir sameininguna um kostnað eða framleiðni sjúkrahúsa. Því var ekki unnt að meta raunverulega stöðu þeirra. Þessi staðreynd gerir okkur afar erfitt um vik að meta þann árangur sem verða mun af sameiningunni. Nú er hins vegar unnið að hvoru tveggja, kostnaðarmælingum og framleiðnimælingum. Í kjölfarið munum við sjá þróunina betur á næstu árum. Það gerir kleift að tryggja betri stefnumótun í allri heilbrigðisþjónustu.

Þegar um er að ræða 20% af útgjöldum ríkissjóðs, málaflokk sem tekur stærsta einstaka hluta fjárlaga, er ljóst að þessar aðgerðir eru löngu tímabærar. Það er því leitt til þess að hugsa að sú tækni sem kostnaðar- og framleiðnimælingin byggist á hefur staðið okkur til boða í hátt á tvo áratugi án þess að við væri brugðist þrátt fyrir að augljóst hafi verið að kostnaður færi eingöngu vaxandi með árunum. Ég fagna því að nú skuli verkefnið loks komið af stað og því verði vonandi lokið innan fárra ára.

Á Íslandi og á Norðurlöndunum öllum hefur því lengi verið haldið fram að heilbrigðisþjónustan sé ókeypis, að allir eigi að fá alla þjónustu fyrir ekki neitt. Á sama tíma er kvartað undan of háum sköttum. Með auknum útgjöldum, aukinni tækni, stærri hóp aldraðra og þekkingu borgaranna á því hvað í boði er, er því miður ekki hægt að mæta auknum kröfum um þjónustu án þess að fólki verði gert ljóst hver kostnaðurinn er. Kostnaðarvitund verður að aukast. Einhvers konar forgangsröðun verður að hafa af hálfu þeirra sem um sameiginlega sjóði okkar halda og bera ábyrgð á útgjöldunum.

Ég hef lengi talið tímabært að endurskoða rekstrarform heilbrigðisþjónustu um land allt, ekki síst með tilliti til sérstaks rekstrarforms, starfsmanna og kjaramála. Nauðsynlegt er að kanna hagkvæmni ýmissa rekstrarforma, svo sem þjónustusamninga, einkarekstur, sem rætt hefur verið um hér í dag og annarra hugsanlegra rekstrarforma. Ekki þarf síður að skoða vel starfsmanna- og kjaramál.

Lögin um heilbrigðisþjónustu eiga fyrst og fremst að tryggja að ákveðin þjónusta og gæði séu fyrir hendi en ekki binda í tíma og rúmi mönnunarmunstur einstakra stofnana sem ekki eru í takti við þær framfarir og breytingar sem orðið hafa og munu verða á heilbrigðisþjónustu. Nauðsynlegt er að tryggja að þeir sem fara með stjórn þessara mála beri bæði fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð.

Að undanförnu hefur skortur á heimilislæknaþjónustu komist í hámæli og verið rætt um kjör heimilislækna. Að mínu mati hafa fastlaunasamningar þeirra ekki skilað árangri. Þegar unnið er eftir afkastakerfi er slíkt yfirleitt hvati til þjónustuaukningar og hagræðingar í kerfinu. Einnig hefur að undanförnu verið gagnrýnt hversu mikið þjónusta sérfræðinga hefur verið nýtt af almenningi og að eitthvað af þjónustu þeirra ætti fremur heima hjá heimilislæknum. Vera má að rétt sé en hafa ber í huga að sjúklingar með svokallaða króníska sjúkdóma leita iðulega til þess sérfræðings sem best yfirlit hefur yfir líðan sjúklingsins og þekkir best þarfir þeirra. Þessir sérfræðingar hafa bæði menntun í almennum lækningum og sérgrein og eru fullfærir um að vísa sjúklingum til réttra aðila.

Að auki tel ég rétt að leggja mikla áherslu á að sérfræðilæknisþjónusta utan sjúkrahúsa er í dag hið eina form heilbrigðisþjónustunnar þar sem hver aðgerð, hver skoðun, nál og stunga, hefur verið metin til fjár og kostnaðargreind að fullu. Þar með eru ítarlegustu upplýsingar um heildarkostnað vegna meðferðar sjúklinga fyrir hendi. Ég tel því nauðsynlegt að kostnaðargreining á þjónustu heimilislækna verði færð til sama horfs og gildir meðal sérfræðilækna.

Nauðsynlegt er að halda kostnaðarvitund, bæði lækna og sjúklinga, þannig að ávallt verði reynt að leita hagkvæmustu leiða í samvinnu læknis og sjúklings. Þessi vitund hefur vaxið, ekki síst með tilkomu þjónustugjalda og bættra upplýsinga um einstaka þætti þjónustunnar.

Það er skoðun mín að á þjónustugjöldum verði að vera ákveðið þak og í sumum tilvikum reynist nauðsynlegt að undanþiggja gjöld. Slíkt fer eftir aðstæðum hverju sinni, eðli sjúkdóms, fjárhagsstöðu sjúklings og hagsmunum þjóðfélagsins.

Undanfarna daga og vikur hefur umræðan snúist mikið um stöðu aldraðra og geðsjúkra. Þjónusta við þessa hópa hefur verið tekin til gagngerrar skoðunar og er það vel. Hagur og heilsa aldraðra hefur mikið breyst á skömmum tíma og því er nauðsynlegt að mæta þeim breytingum með ýmsum hætti og miða við þarfir hvers og eins. Skoða þarf ítarlega hvort aðstæður aldraðra hafi breyst í þá veru að þjónusta við þá sé betur komin í heimahúsum í auknum mæli í stað uppbyggingar öldrunarheimila. Ekki má þó gleyma þeim hópi aldraðra sem liggja mjög sjúkir á hjúkrunarheimilum. Þau þjóna og taka sífellt við fleiri erfiðari og erfiðari sjúklingum.

Fyrirhugað er að koma á daggjaldakerfi fyrir hjúkrunarheimili aldraðra. Ég legg ríka áherslu á að slíkt fyrirkomulag verði unnið í nánu samráði við stjórnendur þessara stofnana og byggt á raunhæfum forsendum sem miðist á hverjum tíma við hversu erfiðum og dýrum tilfellum þeir sinna. Það hefur viljað brenna við, því miður, að þær aðstæður sem ríkja dag frá degi eða viku frá viku séu vanmetnar.

Að ýmsu leyti búum við við mjög góða þjónustu við geðsjúka en umfang þjónustunnar hefur vaxið mjög á undanförnum árum, eflaust vegna árvekni okkar gagnvart geðsjúkdómum og þess að fyrr er gripið til lækninga við geðsjúka. Segja má að nútímaþjóðfélag með kostum sínum og göllum kalli fyrr fram veikleika geðsjúkra en jafnframt geri sjúklingarnir sér fyrr grein fyrir því þurfi þeir á þjónustu að halda. Nú er ein geðdeild í Reykjavík og hafa staðið yfir miklar breytingar á þjónustu deildarinnar sem skilað hafa fjárhagslegum ávinningi. En deila má um hversu mikið eigi að takmarka þjónustuna. Þjónusta við geðsjúka utan sjúkrahúsa virðist einnig fullmettuð. Þeir sem fást við geðsjúkdóma anna ekki eftirspurn. Geðsjúkdómar hafa verið vanmetnir og er afar brýnt að bæta úr þjónustu við þá sjúklinga þannig að bæði sjúklingar og þjóðfélagið beri ekki varanlegan skaða af.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum telja upp atriði sem ég hef áður nefnt hér á hv. Alþingi:

1. Af heildarútgjöldum heilbr.- og trmrn. er kostnaður vegna heilbrigðismála aðeins hluti, annað fer í almannatryggingar.

2. Aukning heilbrigðisútgjalda er ekki einskorðuð við Ísland heldur er hún alþjóðlegt fyrirbæri.

3. Ekki er unnt að greiða allt fyrir alla. Nauðsynlegt er að tryggja kostnaðargreiningu og kostnaðarvitund í heilbrigðisþjónustu, bæði hjá veitendum og hjá neytendum.

4. Tryggja verður að þjónustugjöld íþyngi ekki borgurunum verulega.

5. Skipulag heilbrigðisþjónustu þarfnast gagngerrar skoðunar til að mæta framtíðarkröfum með fjölbreyttu rekstrarformi.

6. Nauðsynlegt er að fá samanburð á kostnaði, gæðum og hagkvæmni og endurskipulag þjónustunnar má ekki koma niður á gæðum.

7. Þjónusta við aldraða og við geðveika eru forgangsverkefni og þau forgangsverkefni þola enga bið.