Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:46:06 (205)

2002-10-04 16:46:06# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalega ræðu. Eins og við vitum hefur hún lagt sérstaka áherslu á þessa kostnaðargreiningu og hvernig hún ætti hugsanlega að fara fram í sjúkrahússkerfinu. Í ræðu hennar kom hins vegar fram að þessi nákvæma kostnaðargreining hefði nú þegar átt sér stað þar sem sérfræðingar eru starfandi utan sjúkrahúsa, menn vissu nákvæmlega frá upphafi til enda hvað hver þáttur hvers læknisverks kostaði. Ég er ekki sammála þessu vegna þess að inn í þessa kostnaðargreiningu og hvernig þessi liður heilbrigðisþjónustunnar skilar sér hefur aldrei verið tekið þegar um er að ræða mistök eða einhvern alvarleika sem kemur upp eftir aðgerð utan sjúkrahúss. Þá eiga ríkisreknu sjúkrahúsin að taka við. Það er því eingöngu aðgerðin sjálf sem er kostnaðargreind eða koma sjúklingsins en ekki sá þáttur sem síðan lendir á ríkisreknu stofnununum. Telur þá hv. þm. ekki að skoða þurfi þetta dæmi frá upphafi til enda, þ.e. starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga, með tilliti til þess í hve mörgum tilvikum ríkiskerfið þarf að taka við sjúklingum sem þeir hafa áður afgreitt?