Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:59:48 (208)

2002-10-04 16:59:48# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:59]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir innlegg hans. Ég tel að áætlanir í heilbrigðiskerfinu séu af hinu góða sem og kostnaðargreining og áætlanir henni tengdar. Hins vegar er mjög nauðsynlegt að hafa sveigjanleika í kerfinu því enginn veit hver verður næstur, hver missir heilsuna næst, og einstaka sjúklingar geta verið það dýrir að þeir riðli hreinlega áætlunum frá mánuði til mánaðar.

Sömuleiðis nefndi ráðherra kjör starfsmanna. Þá vildi ég gjarnan benda á að í áætlunum er miðað við neysluvísitölu en þeir þættir sem í henni felast eru ekki að mínu mati í fullu samræmi við það sem þyrfti í áætlunum í rekstri sjúkrahússþjónustunnar. Ég bendi sérstaklega á sem dæmi að um 67% af kostnaði Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru laun vegna starfsmanna.

Hvað snertir sameiningu spítalanna og hinn kanadíska spítala vil ég segja að ég hef líka heyrt að margir hafa verið mjög ánægðir með sameiningu sjúkrahúsanna, aðrir hafa ekki verið jafnánægðir. Við erum að bera okkur saman við milljón manns en við erum eingöngu 300.000. Á móti vil ég nefna að það er nauðsynlegt að við höfum uppi faglegan metnað og samanburð til þess að vera í takti við þróunina. Það er erfitt að halda uppi slíkum faglegum metnaði og samanburði þegar bara er um eina stofnun að ræða.