Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:06:30 (212)

2002-10-04 17:06:30# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom hér fyrr í dag og lagði fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra eftir fyrri ræðu hans. Hér er nýbúið að auglýsa mjög vel af stjórnarliðum frv. sem á að skila myndarlegum tekjuafgangi, en það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að það ætti enn eftir milli 1. og 2. umr. að fara yfir uppbyggingu hjúkrunarrýma, það ætti eftir að fara yfir tryggingaþáttinn og það á eftir að fara yfir framlög til daggjaldastofnana. Og ef maður skoðar forsendurnar sem eru hérna fyrir fjáraukalögunum fyrir þetta ár, þá er alveg ljóst að þar er ekki um eðlilegar leiðréttingar að ræða í mörgum tilvikum, ekki einu sinni tekið tillit til þeirra samninga sem gerðir hafa verið á þessu ári t.d. hvað varðar sjúkraþjálfara. Mér sýnist líka að stofnkostnaður vegna sjúkrahússbygginga og heilsugæslustöðva muni aukast verulega fyrir lokaafgreiðslu þessa frv.

Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. ráðherra, mér sýnist að þarna geti orðið um hátt í 2 milljarða að ræða að lágmarki: Vill hæstv. ráðherra staðfesta það að þarna sé um algjöra lágmarkstölu að ræða? Og í öðru lagi: Hefur hæstv. ráðherra trú á því að ráðherrar Sjálfstfl. muni fallast á að útvíkka fjárlagaramma heilbr.- og trn. sem þessu nemur?