Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:13:36 (217)

2002-10-04 17:13:36# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki sambærilegar tölur fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, en ég get aflað þeirra að sjálfsögðu.

Hins vegar varðandi launaþáttinn, þá vil ég taka það skýrt fram að ég var að draga þetta fram til þess að skýra aukninguna á útgjöldum til heilbrigðiskerfisins, en það er reglan að launaþátturinn er bættur, en þetta sýnir aukninguna á útgjöldunum. Ég er að draga þetta fram til að skýra þá aukningu sem orðið hefur á útgjöldum til heilbrigðiskerfisins, þetta er meginskýringin. Vandinn er einnig af ýmsum öðrum toga.

Ég sagði það fyrr í umræðunni að svokallaðir aðlögunarsamningar hafa verið mörgum forstöðumönnum erfiðir og ég tel að styrkja þurfi þá framkvæmd í sessi. Það er sem betur fer svo að gerðir hafa verið launasamningar við flestar heilbrigðisstéttir. Það á eftir að fá úrskurð um kjör heilsugæslulækna sem er væntanlegur, en að öðru leyti er friður á vinnumarkaði í heilbrigðiskerfinu.