Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:17:44 (220)

2002-10-04 17:17:44# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi umræða um fjárlagafrv. hefur að þessu sinni snúist meira en oft áður um afmarkaðan málaflokk en frv. í heild, efnahagsforsendur þess og aðrar forsendur sem það hvílir á. Hins vegar má segja að umræðan um heilbrigðismál sé eðlileg í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu síðustu vikurnar og hins, að heilbrigðismál eru um einn fjórði hluti af útgjöldum ríkissjóðs. Því er eðlilegt að menn ræði töluvert um almenn atriði sem lúta að þeim málaflokki, pólitíska stefnumörkun og annað sem því viðkemur.

Heyra hefur mátt fullyrðingar að undanförnu í þá veru að kerfið sé svo dýrt að engu tali tekur, að það sé dýrasta kerfi í heimi og einkennist af óráðsíu og sóun. Það hefur líka mátt heyra þær fullyrðingar að vandi í kerfinu sé ekki sá að það vanti meiri peninga til þess að standa undir þeirri þjónustu sem þarf að veita heldur þurfi að gera skipulagsbreytingar. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar hefur m.a. sett fram þessi sjónarmið á vefsíðu sinni sem mér þykir dálítið sérstök og úr takt við aðrar raddir frá sama flokki sem hafa verið í þá veru að Framsfl. hafi ekki staðið sig nógu vel með heilbrigðismálin og ekki náð að skaffa nógu mikla peninga, þess vegna sé vandinn til kominn sem uppi er. Það er dálítið merkilegt að frá aðalstjórnarandstöðuflokknum kemur gagnrýni á Framsfl. úr tveimur ólíkum áttum. Annars vegar fyrir það að hann standi ekki fyrir nauðsynlegum skipulagsbreytingum og hins vegar að skaffa ekki nóga peninga til þess að unnt sé að veita þá þjónustu sem þörf er á.

Ég held að það sé rétt að fara aðeins yfir þetta vegna þess að það má ekki vera þannig í umræðunni að almenningur standi í þeirri meiningu að útgjöld til heilbrigðismála séu með þvílíkum endemum hér á landi að engu tali taki og um sé að ræða einhverja sóun. Menn mega heldur ekki standa í þeirri meiningu að hér sé um að ræða einhverja sveltistefnu þannig að einstakir flokkar sem standa að ríkisstjórn standi sig ekki nægilega vel í þessum efnum.

Ég hef skoðað dálítið upplýsingar um kostnað við íslenska heilbrigðiskerfið og aflað mér upplýsinga um hver hann er erlendis til þess að hafa samanburð, því við verðum að hafa samanburð okkar kerfis við önnur erlend til að geta lagt mat á hvernig okkur hefur til tekist. Það er eðlilegast að leita á tvo staði, annars vegar til OECD sem hefur mjög vandaðar upplýsingar um samanburð á milli landa á kostnaði til heilbrigðismála og hins vegar upplýsinga af vettvangi Norðurlanda. Það er sjálfsagt og eðlilegt að líta á það.

Skemmst er frá því að segja að samkvæmt upplýsingum frá OECD er kostnaður við íslenska heilbrigðiskerfið sá sjötti hæsti af aðildarþjóðum þess árið 2000, sá sjötti hæsti, ekki sá hæsti, ef við miðum við landsframleiðslu. Ef hins vegar er miðað við útgjöld á mann og fært til jafnvægis miðað við mismunandi verðlag á milli landa þá erum við í fjórða sæti. Þessar tölur, þessi samanburður sýnir að við erum í efri mörkunum, en fjarri því að vera hæstir og alls ekki langhæstir eins og ætla mætti.

Síðan kemur það til viðbótar að fyrrv. heilbrrh. Alþýðuflokksins fékk hingað tvo sérfræðinga fyrir nokkrum árum til þess að gera úttekt á þessum kostnaði hérlendis í samanburði við þær stærðir sem eru notaðar til þess að mæla þessar tölur innan annarra landa OECD. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að af þeim kostnaði sem við teljum fram sem útgjöld til heilbrigðismála þurfum við að draga frá ákveðin útgjöld til þess að við séum að bera saman nákvæmlega sömu útgjöld milli Íslands og annarra OECD-landa en þessi útgjöld eru talin með framlögum til félagsmála í öðrum löndum. Þeir töldu að draga þyrfti frá íslensku tölunum um 0,8--1% af landsframleiðslu til þess að vera með algerlega samanburðarhæfar stærðir. Ef við gerum það fyrir árið 2000 kemur í ljós að kostnaðurinn, heildarkostnaðurinn við íslenska kerfið, var um 8% af vergri landsframleiðslu það ár sem er nákvæmlega það sama og meðaltal OECD-landanna það ár og nákvæmlega sama og meðaltal Evrópusambandslandanna það ár. Þessi samanburður milli landa innan OECD færir okkur því þær niðurstöður að við séum með kostnað sem er samkvæmt meðaltali þessara 26 landa. Það stendur ekki undir þessum upphrópunum um sóun í kerfinu. Þær fullyrðingar hafa því verið afsannaðar og hraktar heim til föðurhúsanna.

Svo getum við skoðað útgjöld í samanburði við önnur Norðurlönd og til þess að vera algerlega samanburðarhæf vegna skilgreininga á útgjöldum milli heilbrigðismála og félagsmála þá skulum við taka saman bæði heilbrigðis- og félagsmál. Þá kemur í ljós að Íslendingar eru með langsamlega lægstu útgjöldin mæld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu til samanlagðra heilbrigðis- og félagsmála af öllum fimm Norðurlöndunum.

Báðar þessar mælingar sýna því að kostnaður við íslenska kerfið er mjög svo hóflegur, sérstaklega þegar horft er til þess að kerfið er mjög gott eins og menn geta kynnt sér í öðrum skýrslum og ég hef ekki tíma til að rekja hér nánar.

Herra forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram mjög rækilega þannig að fullyrðingar og upphrópanir um einhver óskapleg útgjöld sem menn þurfa að gefa skýringar á geta ekki stuðst við samanburðarmælingar á heildarútgjöldum milli Íslendinga og annarra landa. En kostnaður hefur aukist á undanförnum árum. Ekki skal dregin nein fjöður yfir það enda sjáum við það í öllum tölum, bæði fjárlagafrv. og öðru.

En við sjáum það líka í tölum frá OECD að árlegur vöxtur á Íslandi á tíunda áratugnum, árunum 1990--2000, er 2,9% á Íslandi. Það er minna en meðaltal OECD-landanna sem er 3,3%. Yfir tíu ára tímabil er árlegur vöxtur heilbrigðisútgjalda á Íslandi undir meðaltali OECD-landanna, hvort sem við mælum það sem vöxt á útgjöldum eða hlutfall af landsframleiðslu.

Ef ef við reynum að átta okkur á hverjar séu helstu skýringar á þeirri hækkun sem orðið hefur á undanförnum árum hérlendis og skoðum ekki lengur alþjóðlegan samanburð þá sjáum við samkvæmt upplýsingum úr heilbrrn. að launavísitala opinberra starfsmanna og bankamanna hefur á síðustu fimm árum hækkað um 60%. Launaútgjöld í íslenska heilbrigðiskerfinu eru um 70% þannig að það segir sig sjálft að þegar menn hækka launin mjög mikið í þessari starfsemi þá hlýtur það að þýða mjög mikla aukningu á útgjöldum.

Við sjáum t.d. samkvæmt sömu upplýsingum að samningar við Læknafélag Íslands hafa hækkað útgjöld til lækna sem starfa hjá ríkinu frá janúar 2001 til dagsins í dag, á innan við tveimur árum, um 30,5%. Útgjöld til lækna hafa hækkað á innan við tveimur árum, samningsbundin útgjöld, um 30,5%. Í Danmörku sá ég tölur um að á þriggja ára tímabili, 1996--1999, hækkuðu laun til lækna árlega um 2%, þ.e. 2% á ári yfir þriggja ára tímabil. Hér er hækkunin yfir 30% á tæplega tveimur árum. Og til sjúkraliða hefur hækkunin verið 30,8%, til hjúkrunarfræðinga 14,4% og þannig má áfram telja.

Það er því alveg ljóst að íslenska ríkið hefur verið að gera kjarasamninga um gríðarlegar kauphækkanir, enda er það í takt við það sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum árum, að kaupmáttur hefur vaxið um fjórðung síðan 1995 eða 1996. Halda menn að það kosti ekki peninga að bæta kjörin? Auðvitað gerir það það, herra forseti. Það gefur augaleið og er ekkert er nema gott um það að segja í sjálfu sér. En þá þurfum við líka að líta til þess þegar menn leita að skýringum hvers vegna þessi útgjöld hækka.