Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:29:42 (222)

2002-10-04 17:29:42# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:29]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að rekja að stór hluti af útgjaldaaukningu undanfarinna ára í íslenska heilbrigðiskerfinu er kominn til vegna launahækkana, samningsbundinna launahækkana. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar hefur haldið því fram á heimasíðu sinni að vandinn sé ekki að það vanti meiri peninga heldur þurfi skipulagsbreytingar. Ég hlýt að kalla eftir því að Samfylkingin rökstyðji þessa fullyrðingu. Hvers konar skipulagsbreytingum er flokkurinn að kalla eftir? Er hann að gera kröfu til þess að meira af þeirri starfsemi sem veitt er og þjónustu í heilbrigðiskrefinu verði færð út úr spítölunum og heilsugæslustöðvunum yfir á einkamarkaðinn? Er það skipulagsbreytingin?

Við höfum nýlegar skýrslur Ríkisendurskoðunar sem sýna okkur kannski að sá vandi sem helst er hægt að tala um er að útgjöld til sérfræðinga utan spítala hafa hækkað langt umfram það sem menn hafa haldið að hann ætti að gera og talið hafa rétt. Það er ekki hægt vegna þess að menn hafa valið þann kost að segja að samkeppni eigi að ríkja milli sérfræðinga. Samkeppnisstofnun hefur kveðið upp þann úrskurð að ekki megi takmarka fjölda þeirra sérfræðinga sem bjóða fram þjónustu sína þannig að fyrir nýjan sérfræðing nægir að tilkynna sig til Tryggingastofnunar ríkisins og segja: ,,Ég er mættur til starfa.`` Þá fær hann ákveðinn einingafjölda á hverju ári til að veita sjúklingum sínum þjónustu.

Er það skipulagskerfið sem Samfylkingin er að kalla eftir þar sem menn geta bara mætt til leiks og það er engin samkeppni heldur starfa þeir saman sem eru í sömu grein? Hvar er samkeppnin í því? Hvar er hagræðið fyrir ríkið eða sjúklingana?

Herra forseti. Ég segi að á meðan menn tala svona óljóst í þessum efnum þá er engin leið að fallast á að leiðin í íslenska heilbrigðiskerfinu liggi út á einkamarkaðinn.