Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:34:17 (225)

2002-10-04 17:34:17# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Að mörgu leyti er grunntónninn í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar mér mjög að skapi. Ég er sammála flestu því sem þar kom fram. Hann setti inn í samanburðardæmi útgjöld Íslendinga til heilbrigðismála og til heilbrigðis- og félagsmála. Hann benti á að þegar dæmið væri skoðað heildstætt þá stæðum við Norðurlandaþjóðunum að baki, en þegar litið væri til heilbrigðismálanna einna þá kæmi í ljós að Íslendingar stæðu öðrum ekki að baki en við þyrftum þó að bæta okkur á ýmsum sviðum.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp í andsvari eru athugasemdir hans um launamálin og að það sé fyrst og fremst vegna launasamninga sem heilbrigðisútgjöldin hafi farið úr skorðum. Hann nefndi launahækkanir upp á 60%, held ég, og kom síðan með samanburð ýmissa stétta.

Ég held að við þurfum að gæta okkar mjög þegar við förum út í samanburð af þessu tagi og horfa þá á launaþróunina til mjög langs tíma, sérstaklega ef við erum að bera saman launaþróun einstakra stétta. Þær eru með samninga lausa á mismunandi tímum og það getur mjög raskað þessum samanburði.

Á hitt ber að líta einnig, að launavísitala opinberra starfsmanna tekur á grunnlaununum. Það hefur verið að gerast núna á síðustu árum og missirum sérstaklega að yfirvinna hefur verið færð inn í grunntaxtann. Það þýðir að launin hafa ekki endilega hækkað í samræmi við launavísitöluna eða grunntaxtann. Það gefur því ekki fulla mynd þegar sagt er að launavísitalan hafi hækkað sem þessu nemur, 60%. Við erum ekki þar með að tala um launahækkanir að þessu leyti.